Folf á humarhátíð á Höfn

Um helgina verður settur upp folfvöllur á Höfn í Hornafirði í tilefni af humarhátiðinni. Verið er að undirbúa varanlegan völl á Höfn og var ákveðið að nota tækifærið og setja upp prufuvöll þar um helgina. Þeir Sigurþór og Haukur verða með kynningu fyrir áhugasama.

Gufunesvöllurinn opnar aftur

Nú er búið að opna aftur Gufunesvöllinn en síðustu körfurnar voru settar upp í dag. Allar körfur eru nú varanlega fastar, lóðréttar og í réttri hæð. Á næstu vikum verða settir upp byrjendateigar og merkingar sem auðvelda rötun á næsta teig.

Miðnæturmánaðarmót 2012

Skemmtilegt miðnæturmót var haldið 21. júní sl. og var þátttaka mjög góð enda aðstæður allar þær bestu. Keppt var í fjórum flokkum en mesta þátttaka var í opnum flokki.

Á myndinni eru verðlaunahafar í kvennaflokki og varð Guðbjörg Ragnarsdóttir júnímeistari kvenna. Þorvaldur Þórarinsson er júnímeistari karla en hann vann opna flokkinn.

Nánari úrlit eru hér.

Gufunesvöllur endurbættur

 

Nú standa yfir framkvæmdir á Gufunesvellinum en í þessum áfanga er verið að ganga betur frá körfunum en áður hefur verið. Þannig verða þær steyptar niður og stilltar af í réttri hæð og halla. Stefnt er að því að völlurinn opni aftur í lok næstu viku.

Úlli ljóti 2012

 

Fimmtudaginn 7. júní var haldið mót á vellinum á Úlfljótsvatni. Spilaðir voru tveir hringir í flottu veðri við bestu aðstæður. Haukur Árnason vann mótið, Birgir Ómarsson lenti í öðru sæti og Árni Leósson í því þriðja.

Skemmtilegt mánaðamót

Fyrsta mánaðarmótið var haldið þann 17. maí mættu 18 keppendur til leiks. Keppt var í fjórum flokkum í fyrirtaksveðri. Fyrstu mánaðarmeistarar sumarsins eru Þorvaldur Þórarinsson í karlaflokki og Kristrún Gústafsdóttir í kvennaflokki.

Sigurvegari í barnaflokki varð Júlían Máni Kristinsson en hann sigraði Sævar Breka í bráðabana. Sigurvegari í byrjendaflokki varð Sigmar.

Nánari úrslit finnur þú á hér.

Fyrsta mánaðarmótið á fimmtudaginn

Nú er allt að fara í gang á folfvöllum landsins enda veðrið að batna með hverri vikunni. Næsta fimmtudag verður fyrsta “mánaðarmótið” í sumar en það verður haldið þriðja fimmtudag í hverjum mánuði fram á haust. Mótið fer fram á vellinum á Klambratúni og hefst kl. 19. Keppt verður í opnum flokki, kvennaflokki, byrjendaflokki og barnaflokki. Keppnisgjald er 1.000 kr. fyrir félaga ÍFS (2.000 fyrir aðra). Við hverjum alla til að mæta og hafa gaman að.

Folf kynning á Klambratúni – WBDW

Sunnudaginn 6. maí verður Haukur Árnason með kynningu á folfi og heldur um leið mót á Klambratúni en slíkur viðburður fer fram víða um heim þennan dag undir nafninu “World Biggest Discgolf Weekend” hvorki meira né minna. Allar nánari upplýsingar eru á Facebook síðunni okkar en kynningin hefst kl. 14. Við hvetjum alla til að mæta með vini eða ættingja sem langar að kynnast þessu skemmtilega sporti.

Nánari upplýsingar

Folfmót í sumar

Frisbígolfsambandið er búið að kynna mótaskrá sumarsins en upplýsingar má finna undir flokknum “keppnir”. Við endurvekjum hin vinsælu mánaðarmót en þau eru haldin þriðja fimmtudag í hverjum mánuði frá maí fram í september. Við hvetjum alla til að taka þátt í þessum mótum enda skemmtilegt að reyna hæfni sína á móti öðrum spilurum. Á hverju móti er keppt í nokkrum flokkum ef næg þátttaka fæst.

 

Nú er kominn tími

Eftir langan og erfiðan snjóvetur er kominn tími til að taka út folfdiskana og byrja að kasta. Undanfarið hafa spilarar verið að mæta á vellina og má nú sjá spilara daglega á Klambratúni enda veður að verða mjög hagstætt. Sjáumst.