Hreyfum okkur út úr kófinu

Nú eru óvenjulegir tímar og daglegt líf flestra hefur raskast verulega. Margir dvelja meira heimavið en þeir eru vanir og regluleg hreyfing er ekki sami hluti af daglegu rútínunni eins og að fara í sund, ræktina, spila badminton eða stunda aðra skipulagða hreyfingu. Það er því mikilvægt að fólk komi sér upp nýjum venjum, drífi sig út í göngutúra, fjallgöngur, hjólatúra og annað sem kemur blóðinu á hreyfingu.

Frisbígolf er eitt af því skemmtilegra sem fólk getur stundað í þessu ástandi enda fellur það vel innan þeirra marka sem sóttvarnaryfirvöld heimila. Þetta er góð hreyfing utandyra sem reynir bæði á huga og hönd og við hvetjum alla til að útvega sér frisbígolfdisk, (ef þeir ekki eiga hann nú þegar) og skella sér á einhvern þeirra 70 frisbígolfvalla sem eru hér á landi. Það eru bókstaflega vellir út um allt en nýjasti völlurinn var að opna í Grímsey í síðustu viku. Á höfuðborgarsvæðinu eru 13 vellir og það besta er að það kostar ekkert að spila á þessum völlum og þeir eru opnir allt árið.Frisbígolf er fyrir allan aldur og kyn, ekki þarf að bóka rástíma heldur að mæta bara á fyrsta teig og byrja að kasta. Þú getur séð alla vellina undir flipanum “vellir“.

Við hvetjum auðvitað alla til þess að huga að persónulegum sóttvörnum, spila ekki í stórum hópum og snerta ekki búnað annarra. Góða skemmtun.

Frisbígolf í Grímsey

Nú í vikunni var settur upp nýjasti frisbígolfvöllurinn hér á landi en sá völlur er staðsettur í Grímsey og er því nyrsti völlur landsins nánar tiltekið við heimskautabaug.
Það voru félagar í Kiwanisklúbbnum Grími sem stóðu að kaupum á vellinum og stýrðu uppsetningunni. Verkefnið var styrkt af Brothættum byggðum. Þess má geta að nú eru frisbígolfvellir í þremur eyjum hér á landi, Grímsey, Hrísey og Vestmannaeyjum.
Við hvetjum auðvitað alla til þess að leggja leið sína til Grímseyjar og spila þennan nýjasta völl landsins.

11 Íslandsmeistarar krýndir

Í dag lauk Íslandsmótinu í frisbígolfi 2020 sem fram fór um helgina en aldrei hafa fleiri keppendur tekið þátt í frisbígolfmóti hér á landi.

Sigurvegarar urðu eftirtaldir:
Opinn meistaraflokkur: Blær Örn Ásgeirsson
Meistaraflokkur kvenna: Kolbrún Mist Pálsdóttir
Stórmeistaraflokkur 40+: Eyþór Örn Eyjólfsson
Stórmeistaraflokkur 50+: Stefán Þór Sigurjónsson
Almennur flokkur: Bjarki Freyr Kristinsson
Almennur flokkur kvenna: Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir
Almennur flokkur 2: Sigurður Sigurjónsson
Almennur flokkur kvenna 2: Þórunn Eir
Almennur flokkur 3: Ívar Gíslason
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri: Rafael Rökkvi Freysson
Barnaflokkur 12 ára og yngri: Ares Áki Guðbjartsson

Við óskum þeim öllum til hamingju!

Öll úrslit á mótinu má finna hér: https://discgolfmetrix.com/1411707

Íslandsmótið í frisbígolfi 2020

Um helgina fer fram hápunktur keppnisársins í frisbígolfi en alls eru 98 keppendur skráðir til leiks og hafa aldrei verið fleiri. Ekki bara er þetta stærsta Íslandsmót hér á landi frá upphafi heldur er þetta stærsta frisbígolfmót sem haldið hefur verið. Uppgangur sportsins undanfarin ár hefur verið mikill og má segja að þetta ár slái öll met, bæði í þátttöku á mótum en einnig í fjölda þeirra sem spila á völlunum.
Íslandsmótið fer fram á þremur völlum og leiknar eru 18 brautir á dag, á Vífilsstaðavelli á föstudag, á Grafarholtsvelli á laugardag og endað síðan á Gufunesvelli á sunnudag.
Áhorfendur eru velkomnir og fylgjast með en það stefnir í spennandi keppni í öllum flokkum.

Blær Örn setur nýtt vallarmet í Gufunesi

Blær Örn Ásgeirsson heldur áfram að sýna hversu megnugur hann er þegar kemur að frisbígolfi en hann setti núna í júlí nýtt vallarmet á Gufunesvellinum þegar hann spilaði völlinn á 41 kasti eða 17 köstum undir pari. Það er gríðarlega vel gert og verður örugglega erfitt að bæta það met bráðlega. Við óskum Blæ til hamingju og greinilegt að hann er í góðu formi þessa dagana.

Nýir frisbígolfvellir

Nú í sumar eru nokkrir nýir frisbígolfvellir að bætast við þá rúmlega 60 sem komnir eru og þar á meðal eru tveir 18 brauta og eru þá 18 brauta vellirnir orðnir 5 talsins.
Á síðustu vikum er búið að setja upp nýjan glæsilegan 18 brauta folfvöll í Reykjanesbæ (Njarðvíkurskógi), búið að stækka völlinn á Selfossi í 18 brautir (við tjaldsvæðið) og nýr völlur hefur verið settur upp í Hveragerði (keyrið götuna Dynskóga til enda). Einnig eru nýir vellir á Breiðsdalsvík og Borgarfirði eystri.
Við hvetjum auðvitað ykkur öll til að fara og prófa.

Allir í frisbígolf

Það má með sanni segja að landinn hefur tekið frisbígolfið með trompi þetta sumarið en aldrei hafa fleiri stundað þetta skemmtilega sport en einmitt núna. Metsala er á diskum, töskum, körfum og öðrum búnaði sem sportinu fylgir og frábært að sjá þann fjölbreytta hóp sem er farinn að kasta diskum um allt land.
Við höfum stundum sagt að frisbígolf sé besta lýðheilsumál sem fyrir okkur hefur komið lengi og ótrúlega margir sem drífa sig út að kasta diskum í stað þess að hanga heima yfir samfélagsmiðlunum. Göngutúr með tilgangi er oft góð lýsing hjá mörgum.
Við hvetjum alla til að bjóða með vin eða vinnufélaga sem ekki hefur prófað og kynna fyrir þeim frisbígolf.

Er frisbígolfvöllur í þinni heimabyggð?

Nú þegar frisbígolfið er orðið eins vinsælt og raun er með þúsundum spilara og yfir 60 völlum um allt land og margir nýjir að bætast við þá er rétt að benda á hversu einfalt það er að setja upp frisbígolfvöll. Best er að senda erindi til bæjarfélagsins þar sem óskað er eftir að settur verði upp folfvöllur. Ástæðurnar eru auðvitað fjölmargar og hér eru þær helstu:

  • Ódýrt og einfalt er fyrir bæjarfélög að setja upp völl. Engar landslagsbreytingar.
  • Holl og góð hreyfing. Upplagt lýðheilsuverkefni.
  • Hentar öllum aldurshópum, allt frá börnum til ömmu og afa.
  • Kostar ekkert að spila á völlunum.
  • Búnaður er mjög ódýr, í byrjun nægir einn frisbígolfdiskur.
  • Hægt að spila í nánast öllum veðrum, allt árið um kring.
  • Hægt að stunda einn eða fara með vinahópnum.
  • Færir nýtt líf á svæði þar sem er t.d. skógrækt eða útivistarsvæði.
  • Viðhald á völlunum er mjög lítið.

Frisbígolfvöllur er frábær viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er í sveitarfélaginu. Hafið endilega samband við okkur á folf@folf.is til að fá ráðleggingar eða svör við spurningum.

Álandseyjar veðja á frisbígolfið

Á myndinni eru ráðamenn Álandseyja og virðast mjög ánægðir með þetta verkefni.

Nú ætla Álandseyjar að taka af skarið og búa til einskonar paradís frisbígolfara með því að setja þar upp 16 velli í sumar. Verkefnið er samstarf ráðamanna á Álandseyjum og finnska fyrirtækisins Discmania með það í huga að laða að ferðamenn frá Svíþjóð og Finnlandi en Álandseyjar eru vinsæll ferðamannastaður þessara þjóða. Á Álandseyjum búa 30.000 manns og eru eyjarnar alls 6.700 þannig að ferðast þarf á báti til að geta spilað alla vellina. Möguleiki verður að spila alla vellina á einum sólarhring en frekar er ráðlegt að taka þrjá daga í þetta.

Hér má lesa meira um þetta áhugaverða verkefni.
https://www.discmania.net/blogs/discover/turning-aland-into-disc-golf-island?fbclid=IwAR3WWGiUe-R7v_7WIQfwOSlvDHt61dLOZeTQKlr9YDndO45oYtRYa8BlRcM

Ísland fær fyrst landa leyfi til keppnishalds eftir Covid

Í Covid-19 faraldrinum ákváðu PDGA, alþjóðasamtök frisbígolfsins, að leyfa ekki keppnishald á þeirra vegum en mikið af mótum hér á landi eru vottuð PDGA mót. Þetta var auðvitað gert til að draga úr smithættu um allan heim og stuðla ekki að hópsöfnun frisbígolfara með mögulegum smitum.
Nú var verið að tilkynna að fyrsta landið sem fær aftur rétt til mótahalds er Ísland og má það þakka góðum árangri Íslands í baráttu við Covid-19. Sækja þarf um leyfi fyrir hverju móti og þegar er búið að tryggja að Þriðjudagsdeildin og Reykjavík Open verða PDGA vottuð.
Áfram Ísland.