Nú þegar sumarið er á enda og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir næsta ár eru komnir í fulla vinnu þykir okkur rétt að hvetja þau til að huga að frisbígolfinu, einu best heppnaðu leið undanfarinna ára til að fá fólk á öllum aldri til að hreyfa sig. Lýðheilsa í sinni tærustu mynd með hreyfingu og samskiptum.
Á marga folfvelli vantar að smíða heilsársteiga, teiga sem þola þetta mikla álag sem oft er á völlunum vegna mikillar notkunar og hlífa þannig viðkvæmum jarðvegi auk þess að gera notkun og upplifun spilaranna margfalt betri – allan ársins hring. Nýliðið blautt sumar er gott dæmi um hversu miklu þetta munar enda sjáum við gríðarlega mikinn mun á ástandi vallanna hvað þetta varða.
Við hvetjum því þá folfara sem eru með vanbúinn folfvöll í sínu nágrenni til að senda inn formlegt erindi til sveitarfélagsins og óska eftir endurbótum og um leið hvetjum við sveitarstjórnarfólk til að taka jákvætt í þannig erindi og setja fjármagn í smíði heilsársteiga og auka þannig stórlega notkun á völlunum. Þetta eru litlar upphæðir en skila sér marfalt til baka í aukinni hreyfingu íbúa og betri líðan.
Við hjá ÍFS getum alltaf aðstoðað og gefið góð ráð ef sent er fyrirspurn á folf@folf.is