Kvennamót FGR

Sunnudaginn 7. ágúst verður haldið sérstakt kvennamót á vegum Frisbígolffélags Reykjavíkur en mótið er hluti af alþjóðlegu átaki, Womans Global Event, sem haldið um allan heim.

Mótið er sérstaklega sniðið konum, bæði vönum og óvönum í frisbígolfi, og er boðið upp á keppni á nýja vellinum í Grafarholti en á mismunandi teigum eftir getustigi spilara auk þess sem púttleikir og ásakeppni verður í boðið fyrir keppendur. Allar konur er velkomnar og hvetjum við áhugasamar um að mæta.

Hægt er að skrá sig hér: Skráning á kvennamót FGR en einnig er hægt að senda póst á fgr@fgr.is með spurningar eða aðstoð við skráningu.

Kristofer Hivju og frisbígolf

Margir þekktir einstaklingar, bæði hérlendis og erlendis, eru ákafir frisbígolfspilarar. Einn af þeim skemmtilegri er norski leikarinn Kristofer Hivju en hann sló eftirminnilega í gegn sem Þórmundur Risabani í þáttunum Game of Thrones. Kristofer er ákafur folfari og tekur reglulega þátt í mótum auk þess sem hann er vinsæll gestur þar sem frisbígolfið er annarsvegar og hefur verið duglegur talsmaður sportsins.

Hér er skemmtilegt myndband þar sem hann fer yfir helstu töfra fljúgandi diska.
https://fb.watch/eEabK5OgEa/

Íslandsmótið í frisbígolfi

Helgina 26.-28. ágúst nk. verður Íslandsmótið haldið og nú með breyttu fyrirkomulagi eins og kynnt var í vetur. Nú þurfa bestu folfarar landsins að vinna sér inn rétt til að keppa á mótinu og gildir þar aðallega árangur á Gullmótaröð Íslandsbikarsins sem er mótaröð sem haldin hefur verið í sumar.

68 bestu spilararnir úr Gullmótaröðinni í sumar vinna sér sæti auk þess sem fyrrum Íslandsmeistarar fá einnig sjálfkrafa sæti. Einhverjar breytingar geta orðið á hópnum t.d. ef einhverjir keppendur þiggja ekki sæti sitt en fær þá sá næsti í röðinni boð um keppa.

Keppt verður á tveimur völlum, Grafarholtsvelli á föstudegi og sunnudegi og á Gufunesvelli á laugardeginum.

Hér er hægt að sjá allar upplýsingar um mótið og lista yfir þá keppendur sem hafa unnið sér inn sæti: https://discgolfmetrix.com/2259817

Nýir folfvellir í sumar

Áfram heldur frisbígolfvöllum að fjölga en 10 nýjir vellir verða settir upp í sumar til viðbótar við þá sem fyrir eru og er þá heildartala valla á landinu kominn upp í 92. Völlurinn á Flateyri fær líka upphalningu en hann hefur ekki verið spilhæfur í einhvern tíma. Auk þess eru tveir vellir sem stækkaðir eru úr 9 brautum í 18 og einn úr 6 í 9 brautir.

Þessir vellir eru:
1. Bakkafjörður (tilbúinn)
2. Skagaströnd (tilbúinn)
3. Djúpavogur (tilbúinn)
4. Kirkjubæjarklaustur (tilbúinn)
5. Sandgerði (júlí)
6. Flateyri – (júlí)
7. Súðavík (júlí)
8. Hofsós (júlí)
9. Kjalarnes (júlí)
10. Borgarnes (júlí)

Breytingar á völlum:
Grafarholtsvöllur úr 9 í 18 – tilbúinn
Úlfljótsvatnsvöllur úr 10-18 – tilbúinn
Eyrarbakki stækkun úr 6 í 9 – júlí

Íslandsmót barna í folfi

Um síðustu helgi var haldið Íslandsmót barna en það er í fyrsta sinn sem við höldum sérstakt mót fyrir yngstu folfarana. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst og öruggt mál að þetta verður endurtekið að ári.
Hér eru nýjir íslandsmeistarar:

6 ára og yngri
1. Aron Einar Gunnarsson – 50 – Íslandsmeistari
2. Aron Ásgeirsson – 60
3. Vilhjálmur Örn Sigurðsson -70

8 ára og yngri
1. Davíð Tindri Ingason – 77 – Íslandsmeistari
2. Arnþór Ásgeirsson – 82
3. Tómas Fannar Kristinsson – 90

10 ára og yngri
1. Elías Nökkvi Óðinsson – 116 – Íslandsmeistari
2. Gunnar Gauti Gunnarsson – 119

12 ára og yngri
1. Steven Nociczski – 68 – Íslandsmeistari
2. Eyvindur Páll Ólafsson – 71
3. Birtir Ingason – 77

15 ára og yngri
1. Ares Áki Guðbjartsson – 61 – Íslandsmeistari
2. Ólafur Þór Arnórsson – 65
3. Kristófer Breki Daníelsson – 66

Elsti völlurinn fær andlitslyftingu

Nú er lokið stækkun á frisbígolfvellinum á Úlfljótsvatni sem nú er orðinn 18 brauta og gríðarlega skemmtilegur og fjölbreyttur. Þessi fyrsti völlur landsins var settur upp sumarið 2002 og er vel við hæfi að hann stækki á tuttugu ára afmæli sínu en hann er sjöundi 18 brauta völlur landsins.

Breytingin á vellinum snýr ekki aðeins að stækkun úr 10 í 18 brautir heldur eru nú færðar þær brautir sem lágu við eða inn á tjaldsvæðinu þannig að nú skarast völlurinn ekki á við aðra starfsemi á staðnum. Þrjár brautir halda sér óbreyttar frá gamla vellinum og verða núna nr. 16, 17 og 18 en auk þess eru tvær brautir sem snúast við og fá ný númer 7 og 8. Völlurinn er mjög fjölbreyttur með margvíslegum áskorunum fyrir spilara s.s. trjágöng, hæðarmun, körfu við vatnið, aðra upp á gámnum auk síðustu þriggja niður með læknum.

Þrír teigar eru á hverri braut, blár sem er erfiðastur, hvítur og svo rauður sem er léttasti teigurinn.

Við skorum á alla að heimsækja Úlfljótsvatn og prófa völlinn.

Íslandsmót barna í folfi 2022

Íslenska frisbígolfsambandið í samvinnu við Frisbígolffélag Reykjavíkur standa í fyrsta sinn fyrir sérstöku Íslandsmóti barna í frisbígolfi en mótið fer fram laugardaginn 2. júlí á Grafarholtsvelli (Þorláksgeisla 51) og keppt verður í 5 aldursflokkum. Stefnt er að því að hafa mótið skemmtilegt fyrir keppendur og ánægjulega upplifun fyrir krakkana og hvetjum við öll börn, 15 ára og yngri til að taka þátt. Farið verður yfir helstu reglur og því ekki krafist að krakkar hafi keppnisreynslu.

Elstu tveir flokkarnir spila á stóra vellinum en hinir flokkarnir spila Græningjann. Engin vallarmörk og kvaðir verða í gildi á mótinu. Veitt eru verðlaun fyrir 3 efstu sætin í hverjum flokki en einnig eru dregnir aukavinningar úr skorkortum. Allir sem taka þátt fá minidisk.

Púttkeppni verður í gangi allan daginn og pylsur, drykkir og Candyflos fyrir keppendur.

Boðið er upp á eftirfarandi aldursflokka:

15, 12, 10, 8, 6 ára og yngri (Miðað er við fæðingarár)

Dagskrá Íslandsmótsins 2. júlí

Kl. 10.00 15 ára og yngri (fædd 2007) – Stóri völlurinn, bláir teigar, einn hringur

Kl. 10.00 12 ára og yngri (fædd 2010) – Stóri völlurinn, valdir teigar, einn hringur

Kl. 13.00 10 ára og yngri (fædd 2012) – Græningi, 3 hringir

Kl. 14.00   8 ára og yngri (fædd 2014) – Græningi, 2 hringir

Kl. 15.00   6 ára og yngri (fædd 2016) – Græningi, 1 hringur

Keppnisgjald er ekkert, skráning er á folf@folf.is og á staðnum.

Metnaðarfull mótaskrá

Árið 2022 verður klárlega það stærsta í frisbígolfinu hingað til því fyrir utan mikla fjölda spilara og fjölgun á völlum þá verða frisbígolfmót aldrei fleiri en á þessu ári. Við bjóðum upp á getuskipt mót í Gull- og Silfurmótaröðinni, deildir á þriðjudögum og fimmtudögum auk fjölda annara keppna sem ættu að henta öllu getustigi. Silfurmótin og fimmtudagsdeildin eru ætluð þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni auk þess sem sérstök mót sem við köllum Fyrsta kastið byrjar í lok júní.

Hér eru dagskrá ársins sett fram á aðgengilegan hátt.

Frisbígolf er fyrir alla

Nú þegar sumarið er komið má sjá fljúgandi diska á öllum frisbígolfvöllum landsins og greinilegt að vinsældir sportsins aukast með hverju ári. Ástæður eru margar en fyrir utan hversu gaman það er að kasta frisbídiskum þá er folfið einstaklega þægilegt fyrir alla aldurshópa, bíður upp á skemmtilega samveru með vinum og er holl og góð hreyfing.
Við hvetjum alla sem ekki hafa prófað til að taka hring á einhverjum af þeim 80 völlum sem komnir eru víðsvegar um landið hvort sem þið viljið spila á opnum þægilegum brautum, hafa vatn til að kasta yfir eða reyna á miðið á þröngum fallegum skógarvöllum.

Gleðilegt kastsumar!

Þjóðarleikvang í frisbígolfi

Nú er mikil umræða um þjóðarleikvanga í íþróttum enda vantar bæði handbolta og körfubolta sárlega boðlega aðstöðu fyrir landsleiki í þessum greinum.
Á sama tíma og frisbígolfið hefur hreinlega sprungið út í vinsældum er komin svipuð umræða innan okkar raða því allir vellir eru fullsetnir og okkur vantar því orðið öflugan keppnisvöll þar sem hægt er að halda stór frisbígolfmót, bæði innlend og alþjóðleg, “þjóðarleikvang” eins og svona íþróttaaðsstaða er skilgreind hjá stjórnvöldum.

Þjóðarleikvangur er flottur frisbígolfvöllur með 27 brautum með þremur flottum teigum á hverri braut og því hentugur fyrir alla sem vilja kasta diskum í körfur. Kostnaður við svona völl er ekki mikill í samanburði við aðra íþróttaaðstöðu og má segja að mestu verðmætin liggi í landinu sem færi undir svona völl. Gott gróðri vaxið útivistarsvæði með háum trjágróðri er heppilegt svæði með góðu aðgengi og hæfilegri fjarlægð frá þéttbýli.

Á síðasta ári spiluðu yfir 56 þúsund manns frisbígolf og við teljum því ástæðu til þess að gert verði átak í því að nýr alvöru völlur verði að veruleika, að þjóðarleikvangur í frisbígolfi rísi innan 2-3 ára – við vonum auðvitað að allt sveitarstjórnarfólk skoði málið sem fyrst!