Silfurmótaröðin 2024

Silfurmótaröð Íslandsbikarsins eru fimm frisbígolfmót sem eru haldin frá maí til ágúst. Mótin verða áfram einn til tveir dagar með einum til tveimur 18 brauta hringjum. Mótaröðin er skipulögð af Íslenska frisbígolfsambandinu. Þessi mót eru bæði ætluð þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni og þeim sem eru að afla sér reynslu og þróa færni í frisbígolfi. Mótin gefa PDGA stig fyrir þá sem eru skráðir í PDGA en ekki verða PDGA stiga lágmörk fyrir þátttöku í Silfurmótaröðinni.

Veitt eru verðlaun fyrir 3 efstu sætin í öllum flokkum á hverju móti og eru þau verðlaun afhent í lok móts enda hvert mót sjálfstætt. Hvert sæti gefur stig til Íslandsbikarsins og verður stigalisti uppfærður eftir hvert mót. Þrjú bestu mótin gilda samkvæmt meðfylgjandi stigatöflu (hér fyrir neðan).

Keppendur í Gullmótaröðinni geta ekki keppt í Silfurmótaröðinni enda tilgangurinn að auka framboð fyrir þennan hóp keppenda. Heimilt er að skipta um flokk á milli móta en keppandi tekur ekki áunnin stig með sér á milli flokka og getur aðeins unnið einn flokk (þann sem telst sterkari). Keppandi í Silfurmótaröð getur fært sig yfir í Gullmótaröð ef hann hefur aldrei keppt í Gullmóti áður og áttar sig á að hann á frekar heima í Gullmótaröðinni vegna færni sem viðkomandi sýnir fram á í Silfurmóti. Stig færast ekki á milli mótaraða og ekki er hægt að fara aftur í Silfurmótaröð ef keppt er í Gullmótaröð.

Að síðasta Silfurmótinu loknu verður veittur Íslandsbikar í hverjum flokki. Um er að ræða farandbikar sem sigurvegarar varðveita í eitt ár eða þar til næstu mótaröð lýkur. Hver keppandi getur aðeins unnið Íslandsbikar í einum flokki hvert ár og sé keppandi stigahæstur í fleiri en einum flokki telst hann sigurvegari sterkasta flokksins.

Mótin sem eru hluti af Íslandsbikarnum 2024 eru:
Íslandsbikarinn Silfurmót 1 Vífilsstaðir og Guðmundarlundur 11.- 12. maí – FFH
Íslandsbikarinn Silfurmót 2  Njarðvíkurskógar 25. – 26. maí – FFS
Íslandsbikarinn Silfurmót 3  Selfossvöllur 15. júní – FGÁ
Íslandsbikarinn Silfurmót 4 Háskólavöllurinn á Akureyri 20.-21. júlí – FGA
Íslandsbikarinn Silfurmót 5  Grafarholt 24. – 25. ágúst – FGR

Íslandsmótið 2024 verður ekki hluti af Íslandsbikurum. Þeir sem eru með háa reitingu í PDGA stigum geta skráð sig á Íslandsmótið svo við hvetjum þá sem hafa áhuga á þátttöku að skrá sig í PDGA, safna stigum á mótum í sumar og reyna fyrir sér með bestu spilurum landsins í ágúst.

8 keppnisflokkar eru í boði á Silfurmótaröðinni 2024:
Almennur flokkur kvenna 2 – FA2
Almennur flokkur 2 – MA2
Almennur flokkur 3 –  MA3
Almennur flokkur 40 ára og eldri – MA40 
Almennur flokkur 50 ára og eldri – MA50
Almenntur flokkur 60 ára og eldri – MA60
Barnaflokkur 12 ára og yngri –  MJ12
Ungmennaflokkur 15 ára og yngri – MJ15

Í aldursflokkum er miðað við fæðingarár. Til dæmis eru þeir sem verða 40 ára árið 2024 yngstir í MA40 og þeir sem verða 12 ára árið 2024 elstir í MJ12. 

Keppt er á aðal teigum vallanna. Vegalengd er sambærileg eða skráð sem hvítir teigar. Ef keppni fer fram á stærri keppnisvöllum landsins er það í höndum mótsstjóra að auglýsa og útfæra rauða teiga fyrir ákveðna flokka ef þörf þykir á því.   

Fyrirkomulag skráningar er einfaldlega „fyrstir koma, fyrstir fá“. Athugið að skráning fer fram á discgolfmetrix.com en einnig er hægt að hafa beint samband við mótsstjóra til að skrá ykkur á mót eða senda póst á motanefnd@folf.is til að fá aðstoð við skráningu. Æskilegt er að skrá sig tímanlega til að mótsstjóri hafi góðan tíma í að raða ykkur í ráshópa fyrir mót og láta vita ef viðkomandi kemst ekki á mótið.

Stigagjöf
Stigagjöf ÍFS fyrir Íslandsbikarinn er aðlagað að íslenskum keppnisfjölda og byggt á útreikningum frá þremur PDGA stigakerfum frá stórmótum erlendis. Þrjú bestu mótin af fimm gilda og vinna keppendur sér inn stig í þeim flokkum sem þeir keppa í. Skipti keppendur um flokk fylgja stigin ekki með.

1. sæti                         100 stig
2. sæti                         90 stig
3. sæti                         81 stig
4. sæti                         72 stig
5. sæti                         64 stig
6. sæti                         56 stig
7. sæti                         49 stig
8. sæti                         42 stig
9. sæti                         36 stig
10. sæti                       30 stig
11. sæti                       25 stig
12. sæti                       20 stig
13. sæti                       16 stig
14. sæti                       12 stig
15. sæti                       9 stig
16. sæti                       6 stig
17. sæti                       4 stig
18. sæti                       2 stig
19. sæti eða neðar      1 stig

Jafntefli hjá keppendum í heildarniðurstöðu.
Ef spilarar eru jafnir að stigum þegar þrjú bestu mótin eru tekin saman, þá eru talin saman heildarstig í allri mótaröðinni og sá spilari sem er með fleiri stig vinnur.
Ef spilarar eru enn jafnir að stigum þá eru skoðaðar innbyrgðis viðureignir þessara spilara á mótaröðinni.
Ef enn er jafnt þá skal hlutkesti ráða.

Birt með fyrirvara um villur.