Veturinn er góður tími

Nú er haustið að renna sitt skeið og veturinn að heilsa okkur með snjó og kulda. Óþarfi er að leggja diskunum á hilluna yfir veturinn því folfvellir eru opnir allt árið og auðvelt að spila sportið ef passað er upp á hlýjan klæðnað og góðan félagsskap. Margir vellir eru nú komnir með heilsársteiga sem sanna gildi sitt vel yfir vetrartímann því ekki verða til slitfletir í jarðvegi með drullu og bleytu sem erfitt er að fóta sig í.

Við hvetjum alla til þess að spila reglulega í vetur og draga þannig vinina með í góðan göngutúr, ekki skemmir að hafa heitt kakó með á brúsa. Einnig bendum við á að stóru frisbígolffélögin standa fyrir reglulegum mótum og innanhúsæfingum sem gaman er að taka þátt í.

Nýr folfvöllur í Stykkishólmi

Nú í sumar var settur upp nýr frisbígolfvöllur í Stykkishólmi og var hann kláraður á dögunum þegar settar voru upp skilti og merkingar. Völlurinn telur níu brautir og er staðsettur á holtinu fyrir ofan íþróttavöllinn og grunnskólann. Fyrsta brautin liggur frá grunnskólanum og er kastað í átt að þjónustuhúsi tjaldsvæðis. Við hvetjum auðvitað alla íbúa að nýta sér þennan völl og prófa þessa skemmtilegu íþrótt. Einnig er komin góð ástæða fyrir fólk á ferðinni að stoppa við og taka hring.

Þorramótið í roki og rigningu

Síðasta stórmót ársins fór fram um helgina og veðurguðirnir minntu sannarlega á sig því fyrsta haustlægðin gekk yfir síðasta keppnisdaginn. Mótið sem er minningarmót um Þorvald Þórarinsson er fimmta og síðasta mótið í Íslandsbikarsmótaröðinni.
Úrslit mótsins urðu sem hér segir:

Þorramótið 2021 sigurvegarar

Opinn Meistaraflokkur (MPO) – Blær Örn Ásgeirsson

Meistaraflokkur kvenna (FPO) – María Eldey Kristínardóttir

Stórmeistaraflokkur 40+ (MP40) – Runólfur Helgi Jónasson

Stórmeistaraflokkur 50+ (MP50) – Birgir Ómarsson

Almennur flokkur 1 (MA1) – Gestur Sveinsson

Almennur flokkur kvenna 1 (FA1) – Sunneva Lind Blöndal Ólafsdóttir

Almennur flokkur 2 (MA2) – Sigurður Logi Sigurðarson

Almennur flokkur kvenna 2 (FA2) – Harpa María Reynisdóttir

Almennur flokkur 3 (MA3) – Svavar Georgsson

Ungmennaflokkur 18 ára og yngri (MJ18) – Andri Fannar Torfason

Barnaflokkur 12 ára og yngri (MJ12) – Ares Áki Guðbjartsson


Blönduós kominn á kortið

Í gær fór fram formleg opnun á nýjum fribígolfvelli sem staðsettur er í skemmtilegum garði fyrir neðan Húnabraut (fyrir neðan sundlaugina). Það voru þau Kristín Lárusdóttir menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Blönduósbæjar og Birgir Ómarsson formaður ÍFS sem vígðu völlinn. Í framhaldi af vígslunni var haldið námskeið á vegum Frisbígolfþjónustu Akureyrar þar sem réttu handtökin voru kennd en greinilegt er að mikill áhugi er á þessum nýja velli. Við hvetjum auðvitað alla til að prófa.

Glæsilegt Íslandsmót

Um helgina fór fram Íslandsmótið í frisbígolfi en mótið var það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi hingað til og rúsínan í pylsuenda þessa frábæra folfsumars sem nú er að líða. Alls skráðu 144 keppendur sig til þátttöku og biðlisti var orðinn langur þegar honum var lokað. Keppt var á Gufunesvelli í alls 11 flokkum og var mikil spenna í þeim flestum fram á síðustu brautir. Í opnum meistaraflokki náði Blær Örn Ásgeirsson að verja titilinn en nýr meistari var krýndur í Meistaraflokki kvenna þegar María Eldey Kristínardóttir tryggði sér sigur eftir bráðabana.

Íslandsmeistarar 2021 í öllum flokkum

Opinn Meistaraflokkur (MPO): Blær Örn Ásgeirsson
Meistaraflokkur kvenna (FPO): María Eldey Kristínardóttir
Stórmeistaraflokkur 40+ (MP40): Árni Sigurjónsson
Stórmeistaraflokkur 50+ (MP50): Birgir Ómarsson
Almennur flokkur 1 (MA1): Kristinn Þorri Þrastarson
Almennur flokkur kvenna 1 (FA1): Margrét Traustadóttir
Almennur flokkur 2 (MA2): Haukur Arnarson
Almennur flokkur kvenna 2 (FA2): Harpa María Reynisdóttir
Almennur flokkur 3 (MA3): Ægir Tómasson
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri (MJ18): Andri Fannar Torfason
Barnaflokkur 12 ára og yngri (MJ12): Ares Áki Guðbjartsson

ÍFS óskar öllum sigurvegurum til hamingju!

Evrópumótið 2021

Öflugur hópur íslenskra frisbígolfara er nú á leið á Evrópumótið í frisbígolfi (European Discgolf Championchip 2021) en mótið hefst þann 11. ágúst og er haldið í Tékklandi að þessu sinni. Halda átti mótið í fyrra en því var frestað um eitt ár vegna Covid ástandsins. Þátttakendur héldu sætum sínum frá því í fyrra en úrslit Íslandsmóts ræður mestu um val á keppendum.

Hópurinn sem fer til Tékklands er þannig skipaður:

Opinn flokkur – MPO
Blær Örn Ásgeirsson, Mikael Máni Freysson, Snorri Guðröðarson

Meistaraflokkur kvenna – MPO
Kolbrún Mist Pálsdóttir, Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir

Stórmeistaraflokkur kvenna 40+ – FP40
Guðbjörg Ragnarsdóttir

Stórmeistararflokkur 50+ – MP50
Birgir Ómarsson
Haukur Arnar Árnason

Ungmennaflokkur 18 og yngri – MJ18
Rafael Rökkvi Freysson

Auk þess má nefna að hún Katerina Zbytovska sem margir þekkja úr Frisbígolfbúðinni mun keppa fyrir Tékkland og ferðast því með hópnum út auk þess sem Freyr Ævarsson faðir Rafaels Rökkva (og Mikaels Mána) fer einnig með og verður Rafael til aðstoðar (caddy) á mótinu. Við óskum hópnum auðvitað góðs gengis.

Hægt verður að fylgjast með mótinu á vefsíðu mótsins: https://edgc2021.com

Aðalfundur ÍFS

Aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins var haldinn 8. júlí og fór fundurinn fram bæði hefðbundinn en einnig sem fjarfundur. Stjórnarbreytingar urðu þannig að Bjarni Þór Gíslason gaf ekki kost á sér áfram en í hans stað var kosin Svandís Halldórsdóttir. Fram kom að síðasta ár var mikill uppgangur í frisbígolfi hér á landi, metfjöldi valla og skv.
Gallup könnun sem gerð var spiluðu um 45.000 manns íþróttinu á síðasta ári og hafa aldrei verið fleiri. 10 nýir vellir koma upp á þessu ári og í lok sumars verða þeir því orðnir 80 talsins.

Ný stjórn ÍFS er því þannig skipuð:
Birgir Ómarsson formaður
Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri
Gunnar Einarsson
Runólfur Helgi Jónasson
Svandís Halldórsdóttir

Spilaðu folf í sumar

Með mikilli fjölgun frisbígolfvalla um allt land mælum við auðvitað með að diskarnir séu með í för í sumarfríinu. Yfir 70 vellir eru um allt land og upplagt fyrir fjölskylduna að stoppa og taka hring á öllum völlum sem verða á leið ykkar í sumar. Allsstaðar er frítt að spila og auðvelt að rata en hægt er að finna alla þessa velli hér á síðunni undir “vellir” en einnig er hægt að sækja skortkort í gegnum appið Udisc. Góða skemmtun.

Stærsta frisbígolfmótið hingað til

Um helgina var haldið Sólstöðumót FGR en mótið er eitt af fimm mótum Íslandsbikarsmótaraðarinnar en alls tóku 119 keppendur þátt í mótinu sem er mesta þátttaka á frisbígolfmóti hér á landi til þessa. Mótið fór fram á Gufunesvelli og stóð yfir í þrjá daga en spilaðar eru 18 brautir á dag. Keppt var í 11 flokkum og alls voru ræstir út 32 hópar hvern dag.

Þátttaka á mótum í sumar hefur slegið öll met en fyrir utan þessi 5 stórmót eru haldin minni mót í hverri viku s.s. Aukakastið á mánudögum, Þriðjudagsdeildin bæði í Reykjavík og á Akureyri, Fimmtudagsdeildin fyrir óvant keppnisfólk, Kvennamótaröðin auk annara minni móta og hittinga.

Mikil uppbygging

Það er óhætt að segja að frisbígolfið hefur aldrei verið vinsælla hér á landi en einmitt núna enda margir landsmenn sem hafa uppgötvað þessu frábæru íþrótt á síðustu mánuðum og árum. Margir augljósir kostir eru við þessa frábæru íþrótt og holl hreyfing með góðum vinum er aðeins hluti þeirrar ástæðu að folfið er orðið jafnvinsælt er raun ber vitni.

Það er mikið í gangi um þessar mundir og margt spennandi framundan.

  • 70 folfvellir eru um allt land
  • 10 nýjir vellir verða byggðir á þessu ári
  • Yfir 100 mót eru skipulögð árið 2021
  • Víða er verið að uppfæra velli með heilsársteigum
  • Grafarholtið stækkar í 18 brautir í sumar
  • Barnanámskeið verða í boði í sumar
  • Sérstök kvennamótaröð verður í boði í sumar
  • 12 viðurkenndir frisbígolfkennarar eru til taks
  • Búið er að stofna 7 frisbígolffélög sem standa fyrir námskeiðum og mótum

Það er því mikil uppbygging í gangi um allt land og því óhætt að fullyrða að þetta sumar verður örugglega það skemmtilegast í frisbígolfinu hingað til.