Fyrsta Silfurmótið í sumar

Laugardaginn 27. maí verður fyrsta Silfurmótið sumarsins haldið á Grafarholtsvelli og hefst keppnin klukkan 11.

Silfurmótin eru öllum opin sem ekki keppa í Gullmótaröðinni og hvert mót sjálfstætt. Mótin er sérstaklega ætlum þeim sem keppa sjaldan eða eru að stíga sín fyrstu skref.

Við hvetjum alla til þess að taka þátt en hægt er að skrá sig á þessari slóð til klukkan 20 í kvöld. https://discgolfmetrix.com/2505228

Fyrsta stórmót sumarsins

Um helgina fer fram Vormót Frisbígolfbúðarinnar og Smartfix en mótið er fyrsta Gullmót Íslandsbikarsins sem er mótaröð sem samanstendur af fimm Gullmótum sem standa yfir í allt sumar. Hvert mót er sjálfstætt en í lokin eru veitt heildarverðlaun fyrir bestu þrjú mótin af þessum fimm.

Yfir 90 keppendur taka þátt um helgina og eru spilaðar þrjár umferðir á Grafarholtsvelli en keppt er í 7 getuflokkum. Allir eru auðvitað velkomnir að fylgjast með en best er að stoppa fyrst við í húsinu okkar að Þorláksgeisla 51 til að fá allar upplýsingar um mótið.

Hægt er að fylgjast með mótinu hér: https://www.pdga.com/apps/tournament/live/event?eventId=67200&view=Scores&division=MA1&round=1

Viðburðaríkt folfsumar

Hér erum við búin að safna saman helstu viðburðum sem eru á döfinni hjá Íslenska frisbígolfsambandinu og frisbígolffélögum um allt land. Dagskráin er metnaðarfull og af nógu að taka. Algjör sumarveisla!

Hægt er að skoða viðburðardagatal hér á síðunni undir VIÐBURÐIR

Kraftmikil frisbígolffélög

Félagar FGA vinna að smíði teiga, apríl 2023

Einn mælikvarði á styrk íþrótta er hversu virk íþróttafélögin eru í hverri grein. Allt frá því að Íslenska frisbígolfsambandið var stofnað 2005 hefur markmiðið verið að hvetja til stofnunar frisbígolffélaga um allt land, sérstaklega í kringum þá velli sem komnir eru.

Nú eru starfandi mörg öflug félög sem eru farin að reka metnaðarfulla dagskrá með hittingum, mótahaldi, námskeiðum og viðhaldi og endurbótum folfvalla í þeirra heimabyggð. Kraftmikil starfsemi með áhugasömu félagsfólki gerir mikið fyrir uppgang íþróttarinnar og við hvetjum alla til að skrá sig á félagaskrá og taka þannig þátt í starfseminni.

Þau félög sem eru með virka starfsemi eru m.a.:

Frisbígolffélag Akureyrar – www.fga.is
Frisbígolffélag Austurlands
Frisbígolffélag Árborgar
Frisbígolfklúbbur Hafnafjarðar – www.ffh.is
Frisbígolffélag Langanesbyggðar – https://www.facebook.com/Frisbigolf
Frisbígolffélag Reykjavíkur – www.fgr.is
Frisbígolffélag Suðurnesja – https://www.facebook.com/frisbigolffelagsudurnesja/
Frisbígolfdeild UMF Samherja Hrafnagili

Öflugt frisbígolfsumar hjá FGA!

Nú þegar snjórinn er loksins farinn að minnka á Norðurlandi er frisbígolffélagið þar að fara af stað með metnaðarfullt starf þar sem finna má ýmislegt fyrir alla.

Akureyrarbikarinn
Akureyrarbikarinn verður haldinn eftirtalda sunnudaga í sumar en spilað verður á öllum 7 völlum sem eru í boði á Akureyri og nágrenni. Mótin eru:

23. apríl – Hrafnagil
7. maí – Svalbarðseyri
28. maí – Hamarkotstún
11. júní – Háskólavöllur
2. júlí – Verkmenntaskólinn
6. ágúst – Hrísey
3. september – Hamrar

Sunnudagsdeildin
Sú nýjung verður í sumar að boðið verður upp á sunnudagsdeild alla þá sunnudaga sem ekkert annað mót er á dagsskrá. Sunnudagsdeildin er ætluð fyrir alla frisbígolfara Akureyrar og nágrennis og er góð leið fyrir alla sem vilja prófa keppnisfolf. Frítt verður á mótin.

Spilað verður á fjórum völlum til skiptis en þetta eru vellirnir á Hrafnagili, Svalbarðseyri, Verkmenntaskólanum og Háskólavellinum.

Þriðjudagsdeildin
Þriðjudagsdeild verður haldin í sumar og byrjar um leið og aðstæður leyfa.

Íslandsbikar ÍFS
Þjú mót verða í Íslandsbikarnum hér á Akureyri, tvö í Gullmótaröðinni og eitt í Silfurmótaröðinni.

Gullmót ÍFS – Akureyri Open 2.-4. júní
Gullmót ÍFS – Norðurlandsmótið 21.-23. júlí
Silfurmót ÍFS – Háskólavellinum á Akureyri 26.-27.ágúst

Upplýsingar um mótin verða á Facebook síðu FGA en einnig á vefsíðunni www.fga.is og hvetjum við alla til að fylgjast vel með og taka þátt.

Hægt er að skrá sig í Frisbígolffélag Akureyrar á þessari vefslóð: https://fga.is/skra-i-felagid/

Alvöru bisness

Gott dæmi um vöxt frisbígolfs í heiminum má sjá í fjölda þeirra fyrirtækja sem framleiða og selja folfdiska. Oft er talað um þessa fjóra stóru í þessu samhengi en það eru Innova, Discraft, Latitude 64 og Discmania en auk þeirra eru yfir 40 framleiðendur af diskum þó að líklegt sé að þeir gætu verið töluvert fleiri. Sumir af stærri aðilunum framleiða fyrir önnur merki og sem dæmi hefur Innova framleitt diska fyrir Dismania, Millennium, Infinite og Hyzer Bombs.

Mörg ný merki hafa sprottið fram undanfarið og hafa strax náð ágætum árangri og eru sum þeirra strax fáanleg hér á landi. Aukinn hagnaður þessara fyrirtækja hefur einnig skilað sér í hærri samningum við bestu spilarana en metupphæðir hafa verið greiddar undanfarin ár og er 10 milljón dollara samningur Discraft við Paul McBeth dæmi um það sem og stórir samningar við Ricky Wisocky og Paige Pierce. Frisbígolfið er því orðinn öflugur atvinnuvegur -alvöru bisness.

Frisbígolf um allt land!

Nú er rétti tíminn til að panta og undirbúa hönnun og uppsetningu á nýjum frisbígolfvelli fyrir sumarið. Nú eru komnir yfir 90 vellir um allt land og vinsældir frisbígolfsins halda áfram að aukast enda frábær íþrótt fyrir alla aldurshópa og góð hreyfing sem hægt er að stunda allt árið.

Hafðu strax samband við þitt sveitarfélag og hvettu þau til dáða, það er ekki seinna vænna en að fjárfesta í heilsunni og setja upp völl. Hafið endilega samband við okkur hjá ÍFS á folf@folf.is ef ykkur vantar aðstoð, ráðgjöf eða hönnun.

Frisbígolf – einfalt, ódýrt og alveg ótrúlega vinsælt!

Nýtt merki PDGA

Nýlega var kynnt nýtt merki PDGA – Professional Disc Golf Association sem eru þau samtök sem halda utan um skipulag frisbígolfs í heiminum s.s. reglur, mótahald, stigagjöf ofl.

Samkvæmt skýringum sem koma frá PDGA þá táknar nýja merkið nýtt upphaf og í því kemur fram útlit fljúgandi disks, sjóndeildarhringur jarðar, sólarupprás nýs dags og körfukeðjur sem tákna meðal annars tengingar frisbígolfssamfélagsins.

Hér má sjá nokkur af gömlu merkjum PDGA.

Dagurinn lengist!

Nú erum við Íslendingar farin að finna fyrir aukinni birtu og lengri daga enda vorið handan við hornið. Við sjáum að flestir folfvellir eru mikið notaðir í vetur þó að snjór og hálka hafi gert mörgum lífið leitt enda auðvelt að spila íþróttina alla mánuði ársins og körfurnar grípa diskana vel svo fremi sem þær standi upp úr snjónum. Góður fatnaður og mannbroddar geta komið sér vel þessa dagana.