Vöfflufundur ÍFS

Árlegur spjallfundur okkar með kaffi og vöfflum verður haldinn fimmtudaginn 22. febrúar nk. kl. 20 í glæsulegu og endurbættu húsnæði FGR að Þorláksgeisla 51. Farið verður yfir það helsta sem er á döfinni í frisbígolfinu auk þess sem mótadagskrá sumarsins verður kynnt.

Öll velkomin, takið kvöldið frá.

Breytt Klambratún

Nú standa yfir langþráðar breytingar á folfvellinum á Klambratúni en völlurinn hefur verið um árabil einn af vinsælli völlum landsins.
Framkvæmdirnar miða að því að stækka völlinn í 14 brautir og hafa brautir verið færðar meira í útjaðar garðsins til þess að gæta að öryggi og stuðla að betra flæði við aðra notkun á svæðinu. Bætt hefur verið við 6 nýjum brautum.
Allar körfur eru komnar á rétta staði en bráðabirgðateigar eru á flestum brautum. Unnið verður að nýjum teigum og merkingum á næstu vikum og er það von okkar að breytingarnar falli í góðan jarðveg hjá spilurum.

Folfað í frosti

Nú þegar veturinn er að ganga í garð og fátt skemmtilegra en klæða sig eftir aðstæðum, grípa diskana og skella sér hring á einum af 92 völlum sem opnir eru allt árið hér á landi. Lítið mál er að spila við vetraraðstæður en gott er að hafa í huga góðir skór geta skipt miklu máli og léttir mannbroddar eru oft nauðsynlegir.

Úlli ljóti 2023

Um helgina verður haldið hið árlega folfmót “Úlli ljóti” en mótið er það elsta á landinu og hefur verið haldið á hverju ári frá árinu 2002 á vellinum á Úlfljótsvatni. Mótið er fjáröflunarmót fyrir völlinn en nýlaga voru keyptar körfur og völlurinn stækkaður í 18 brautir. Smíði á teigum er byrjuð og eru komnir tveir á braut 1 og 4. Næsta vor er síðan áformað að fjölga teigum og gera þennan skemmtilega völl enn betri.

Gullmótaröð Íslandsbikars ÍFS 2023

Í sumar voru haldin fimm Gullmót í Íslandsbikarnum og voru þrjú þeirra á Grafarholts- og Gufunesvelli en tvö á Hömrum á Akureyri.

Lokastaðan í Gullmótaröðinni er eftirfarandi:

Opinn meistaraflokkur (MPO) Ellert Georgsson
Almennur flokkur kvenna (FA1) Harpa María Reynisdóttir
Stórmeistarflokkur 40+ (MP40) Kristján Dúi Sæmundsson
Stórmeistarflokkur 50+ (MP50) Stefán Sigurjónsson
Almennur flokkur 1 (MA1) Jón Guðnason
Ungmennaflokkur 18 ára og yng (MJ18) Ares Áki Guðbjartsson

Við óskum sigurvegurum sumarsins innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Silfurmótaröð Íslandsbikars ÍFS 2023

Í sumar fór fram Silfurmótaröð ÍFS en alls voru þetta fimm mót og keppt á völlunum í Grafarholti, Selfossi, Njarðvíkurskógum, Vífilsstöðum og Háskólavellinum á Akureyri. Góð þátttaka var í mótaröðinni en þrjú bestu mótin af fimm giltu til stiga og urðu lokaúrslit sem hér segir:

Sigurvegarar Silfurmótaraðarinnar 2023:

Almennur flokkur 2 (MA2) – Óskar Kjartansson
Almennur flokkur kvenna 2 (FA2) – Anna Sveinlaugsdóttir
Stórmeistaraflokkur 40+ (MA40) – Auðunn Elfar Auðunsson
Stórmeistaraflokkur 50+ (MA50) – Róbert Sigurðsson
Almennur flokkur 3 (MA3) – Agnar Agnarsson
Ungmennaflokkur 15 ára (MJ15) – Stefán Carl Erlingsson
Barnaflokkur 12 ára og yngri (MJ12) – Eyvindur Páll Ólafsson

Við óskum öllum til hamingju.

Frábært Íslandsmót 2023

Um helgina var haldið Íslandsmótið í frisbígolfi og var keppt á völlunum í Gufunesi og Grafarholti. Alls tóku 72 þátt í mótinu og keppt er í 5 flokkum en keppendur vinna sér inn keppnisrétt á Íslandsmóti með góðum árangri í Gullmótaröð Íslandsbikars ÍFS á árinu.
Veðrið fyrsta daginn var heldur strembið með sterkri suðvestanátt og skúrum en keppendur létu það ekki á sig fá og kláruðu sig af á vellinum í Gufunesi. Seinni tvo dagana var keppt á Grafarholtsvelli en lék veðrið þá við keppendur.
Heildarúrslitin má sjá hér

Íslandsmeistarar urðu:

Opinn meistaraflokkur: Blær Örn Ásgeirsson
Meistaraflokkur kvenna: María Eldey Kristínardóttir
Stórmeistaraflokkur 40+: Kristján Dúi Sæmundsson
Stórmeistaraflokkur 50+: Birgir Ómarsson
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri: Ares Áki Guðbjartsson

Til hamingju Íslandsmeistarar 2023.

Íslandsmótið í frisbígolfi

Íslandsmótið fer fram dagana 8.-10. september 2023 og stendur mótið í þrjá daga, föstudag, laugardag og sunnudag. Keppt verður á tveimur völlum, Gufunesvelli á föstudag og Grafarholtsvelli á laugardag og sunnudag. 

Íslandsmótið er skilgreint mót þeirra bestu og keppt er í 5 flokkum og verða því fimm Íslandsmeistarar krýndir eftir mótið. Mótið er PDGA vottað XC mót. Íslandsmótið er sjálfstætt mót og ekki hluti af Íslandsbikarsmótaröðinni en keppendur þurfa að vinna sér rétt til þátttöku með árangri á Gullmótaröðinni. 

Mótshaldari er Íslenska frisbígolfsambandið – ÍFS
Mótsstjóri: Ólafur Haraldsson. Aðstoðarmótsstjóri: Gunnar Einarsson.

Skilgreining á flokkum og keppnisfyrirkomulag:

1. Opinn meistaraflokkur (MPO) – Bláir teigar
2. Meistaraflokkur kvenna (FPO) – Blandaðir bláir og hvítir teigar
3. Stórmeistaraflokkur 40+ (MP40) – Bláir teigar
4. Stórmeistaraflokkur 50+ (MP50) – Bláir teigar
5. Ungmennaflokkur 18 og yngri (MJ18) – Bláir teigar

Öll áhugasöm eru velkomin að fylgjast með mótinu og sjá bestu spilara landsins spreyta sig.

Frábær þátttaka í folfi á Landsmóti UMFÍ

Um helgina fer fram Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki og eins og undanfarin ár er keppt í frisbígolfi. Mikil þátttaka var en alls kepptu tæplega 90 krakkar á vellinum á Sauðárkróki og var þar með ein af fjölmennustu keppnisgreinunum á mótinu. Það er greinilegt að unga fólkið er að sækja sig í íþróttinni og verður gaman að sjá vöxtinn í framtíðinni.

Nýr flottur folfvöllur á Hvammstanga

Í dag var opnaður skemmtilegur 9 körfu frisbígolfvöllur í Kirkjuhvammi á Hvammstanga en uppsetning hans var ein af hugmyndunum sem fram komu við vinnu starfshóps um íþrótta- og útivistarsvæðið í Hvamminum sem fram fór árið 2021. Völlurinn er staðsettur á mjög fallegu svæði og þeir sem hafa prófað eru í skýjunum með hvernig til hefur tekist.

Til viðbótar við körfurnar í Kirkjuhvammi verða settar upp tvær körfur á Bangsatúni. Þær körfur eru gjöf til sveitarfélagsins frá Húnaklúbbnum og eru forsvarsmönnum klúbbsins fræðar bestu þakkir fyrir. Ungmennaráð hefur verið Húnaklúbbnum innan handar með verkefnið og meðlimum ráðsins jafnframt færðar þakkir fyrir áhugann fyrir verkefninu.

Völlurinn er sá 94 í röðinni hér á landi og við hvetjum auðvitað alla til að prófa hann.