Maí mánaðarmótið verður haldið fimmtudaginn 22. maí á Gufunesvellinum og hefst mótið kl. 19. Keppt verður í öllum flokkum og skráning hefst á vefnum föstudaginn 16. maí. Við hvetjum alla til þess að taka þátt.
Gott folfsumar framundan
Nú er að skýrast betur hvort og hvar nýjir vellir koma upp í sumar. Fyrir liggur ákvörðun um 8 velli sem bætast við þá 7 sem fyrir eru. Einnig verða gerðar endurbætur á völlunum á Klambratúni og Gufunesi.
Nýju vellirnir eru:
Í Reykjavík; Fossvogur, Laugardalur og Breiðholt, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, við Apavatn, á Flúðum og í Hrísey. Á Klambratúni og Gufunesi verða settir þrír teigar við hverja körfu auk þess sem öllum körfum í Gufunesi verður skipt út fyrir nýjar. Stefnt er að því að öllum framkvæmdum ljúki í júlí. Það verður því gaman fyrir alla folfara í sumar.
Fyrsta mánaðarmótið
Fimmtudaginn 17. apríl verður fyrsta mánaðarmót sumarsins haldið og er mæting kl. 13. Keppt verður eftir hönnun nýs vallar í Fossvogsdalnum en settar verða upp ferðakörfur þar sem völlurinn verður ekki settur formlega upp fyrr en í sumar. Þægilegasta leiðin er að koma niður Árland og beygja þar til hægri á bílastæði sem þar eru.
Árgjald 2014
Nú þegar fyrsta mót sumarsins er að skella á er rétt að minna á að félagsaðild ÍFS gefur afslátt af mótum auk annara fríinda. Árgjaldið er aðeins 2.000 krónur og fyrir eldri félaga er nóg að millifæri á reikning félagsins. Nýjir félagar þurfa að ská sig inn á forsíðu folf.is
Millifærsluupplýsingarnar eru:
Íslenska frisbígolfsambandið kt. 450705-0630, reikningur: 513-14-503326
Reykjavík verður betri
Í nýafstöðnum kosningum á vef Reykjavíkurborgar, Betri hverfi, var samþykkt að setja upp á þessu ári þrjá nýja frisbígolfvelli í Reykjavík auk þess að gera endurbætur á vellinum okkar í Gufunesi. Nýju vellirnir verða allir 9 körfu og munu koma í Breiðholti (við Fella- og hólakirkju), í Fossvogsdal og í Laugardal (fyrir ofan gömlu þvottalaugarnar). Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær vellirnir verða settir upp annað en það verður klárað á þessu ári. Þetta eru auðvitað frábærar fréttir fyrir okkur folfara og stefnir í skemmtilegt folfsumar.
Aðalfundur ÍFS
Aðalfundur ÍFS var haldinn 13. mars sl. og fór vel fram. Fyrir utan hefðbundin aðalfundarstörf var farið í gegnum verkefnin framundan en þar ber hæst aukinn áhugi á íþróttinni hérlendis og möguleg aukning valla á þessu ári ef allt gengur eftir.
Í stjórn voru kosnir Birgir Ómarsson formaður, Kristinn Arnar Svavarsson formaður mótanefndar og Þorsteinn Óli Valdimarsson.
Klakinn
Folfarar sem hafa spilað í vetur hafa þurft að glíma við óvenjumikinn klaka á völlunum, sérstaklega á Klambratúni en sá klaki er búinn að vera vikum saman. Í samtali okkar við garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar má búast við einhverjum skemmdum á grasinu sérstaklega ef ekkert fer að hlána. Það alvarlegasta er að grasrótin skemmist því það kemur í veg fyrir að grasið nái sér á strik aftur. Við vonum bara það besta og mætum vel skóaðir í vor ef þetta fer á þennan veg.
Frisbígolf í 10 ár
Þessi skemmtilega mynd er tekin í janúar 2004 af körfu 7 á Úlfljótsvatni. Áður en við fengum alvöru körfur voru ýmsar útfærslur prófaðar m.a. var fyrsti völlurinn settur upp á Akureyri en þar voru staurar notaðir sem þurfti að hitta í. Körfurnar á Úlfljótsvatni voru síldartunnur sem sagaðar voru í tvennt en eins og sést á meðfylgjandi mynd var ekkert auðvelt að “skora” nema standa alveg við körfuna og rétta diskinn á milli keðjanna.
Áramótið 2014
Vetrarfolf
Nú er veturinn skollinn á og þá hefst skemmtilegur tími fyrir okkur folfara. Lognstillur í köldu veðri er góður tími til að spila frisbígolf og margir kostir við að spila þegar laufin eru farin af trjánum svo fremur sem hvítu diskarnir eru skildir eftir heima.