Nú um helgina tók Blær Örn Ásgeirsson þátt í sterku móti í Skotlandi og gerði sér lítið fyrir og sigraði mótið á 16 köstum undir pari en Blær er aðeins 14 ára gamall. Það vakti mikla athygli meðal mótshaldara og keppenda að hann ákvað að spila í sterkasta flokknum í stað þess að spila í barnaflokki sem hann hefði mátt gera. Þetta hefur hann gert hér heima líka og yfirleitt endað í verðlaunasæti.
Með auknum vinsældum frisbígolf hefur orðið mikil aukning yngri spilara og óhætt að segja að margir efnilegir séu þar í hópi. Blær Örn er sönnun þess en þrátt fyrir að vera aðeins 14 ára þá er hann orðinn einn af okkar fremstu spilurum. Það verður gaman að fylgjast með þessum flotta strák í framtíðinni.
Nú í sumar ætlar Íslenska frisbígolfsambandið að halda sérstaka kvennamótaröð í frisbígolfi og er öllum konum velkomið að taka þátt, bæði reyndum og óvönum. Haldin verða 6 mót í sumar (annan hvern miðvikudag) og gilda 4 bestu mótin til titilsins Kvennamótameistari 2017. Lögð verður áhersla á að hafa létta og skemmtilega stemningu.
Mikill áhugi á frisbígolfinu hefur auðvitað skilað sér í fleiri spilurum, fleiri mótum og fjölgun valla. Nú í sumar er orðið staðfest að 9 nýjir vellir bætast við þá 30 sem fyrir eru en þetta eru vellir víða um landið. Flestir þessara nýju valla verða settir upp á næstu vikum og ættu allir (nema Grafarholt) að vera klári í byrjun júní.
Þann 30. mars sl. var haldinn aðalfundur ÍFS og var hann vel sóttur. Farið var í gegnum verkefni síðasta árs sem var það besta í sögu frisbígolfsins frá upphafi. Aldrei hafa fleiri stundað sportið og vellirnir eru orðnir 30. Á síðasta ári voru haldin rúmlega 60 folfmót sem er líka met. Kynnt var áframhaldandi uppbygging á sportinu fyrir þetta ár en gert er ráð fyrir að amk. 8 nýjir vellir komi upp í sumar. Einnig var kynnt mótaskrá fyrir árið en sérstök kvennamótaröð verður prófuð í sumar og er það von okkar að það auki þátttöku kvenna. Ný stjórn var kosin en þar kom Halldór Þór inn fyrir Kristinn Arnar sem gaf ekki kost á sér áfram. Stjórnina skipa Birgir Ómarsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Jón Símon Gíslason, Árni Sigurjónsson og Halldór Þór Helgason
Einn af kostum við okkar frábæra sport er möguleiki á heilsársiðkun. Þó að auðveldast sé að stunda frisbígolf að sumarlagi þá er líka mjög skemmtilegt að spila við vetraraðstæður. Passa þarf vel að nota litríka diska sem auðvelt er að finna og auðvitað fatnað við hæfi. Nú þegar veturinn er kominn af krafti hvetjum við alla til að prófa en fylgjast vel með hvar diskarnir lenda til þess að auðvelda leitina.
Það hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu frisbígolfíþróttarinnar í Finnlandi síðustu 10 ár. Þó að við séum ánægð hér á Íslandi með okkar 30 velli þá var nýlega opnaður 575undasti völlurinn í Finnlandi. Þar af hafa 70 vellir komið á síðustu tveimur árum.
Árið 2016 hefur verið frábært fyrir frisbígolfið og ánægjulegt að sjá hversu mörg ný andlit sáust á völlunum um allt land. Þrír nýjir vellir voru opnaðir og vinsælustu vellirnir voru troðfullir flesta góðviðrisdaga í sumar. Þannig var oftast biðröð á fyrsta teig á Klambratúni sem er okkar vinsælasti völlur. Aldrei hafa fleiri mót og keppnir verið haldin en á þessu ári en þau yrði yfir 60 sem er mikil fjölgun frá því í fyrra. Um síðustu helgi lauk haustmótaröðinni 999 þar sem spilað var á þeim 9 völlum sem nú eru komnir á Stór-Reykjavíkursvæðinu.