Geggjað veður

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að veðrið er búið að leika við okkur landsmenn undanfarnar vikur þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem léttskýjað hefur verið svo lengi að met hafa verið slegin. Þetta skilar sér auðvitað í mikilli spilamennsku á frisbígolfvöllunum en sjaldan eða aldrei hefur jafnmikill fjöldi verið að spila.
Þetta er mikill viðsnúningur í veðri frá síðasta sumri þar sem ekki stytti upp fyrr en um miðjan júlí.
Allir sem eiga frisbígolfdisk er hvattir til að nýta sér veðrið og fara út og spila og þeir sem ekki hafa spilað frisbígolf að láta verða af því og prófa þetta skemmtilega sport.

Nú er tíminn!

Nú er kominn einn uppáhaldstími allra folfara þegar hlýnar í lofti og vellirnir koma undan snjó og frosti. Margir hafa verið duglegir að spila í vetur, bæði utandyra sem innan en boðið var upp á inniæfingar í íþróttahúsum í vetur. Fjöldi móta verða í boði í sumar en það eykur spennuna að taka þátt í keppni og sjá hvar þú stendur í samanburði við aðra. Boðið er upp á marga getuflokka á mótunum.

Það hefur í raun aldrei verið betri tími til þess að spila frisbígolf og kynnast þessu frábæra sporti. Nú eru 59 vellir um allt land sem er ókeypis að spila á og það eina sem þarf er frisbígolfdiskur til að geta spilað. Þá er auðvelt að kaupa hér á landi og við hvetum alla til að prófa sem ekki hafa þegar gert það.

Fylgist með á FB síðunni okkar: https://www.facebook.com/folfisland/

Paul McBeth tekjuhæstur

Í frisbígolfi eru margir af bestu keppendunum atvinnumenn í sportinu en þeir afla sér tekna með verðlaunafé sem veitt er á stærri mótum auk þess að fá tekjur af námskeiðahaldi og frá auglýsendum. Þúsundir spilara hafa þannig ágætistekjur af þessu og eftir síðasta frisbígolfmót er fjórfaldur heimsmeistari í sportinu orðinn sá tekjuhæsti frá upphafi en samtals hefur hann unnið sér inn 432.908 dollara eða tæpar 52 milljónir íslenskra króna.

Hefur þú prófað frisbígolf?

Frisbígolf er íþrótt sem er farin að njóta mikilla vinsælda hér á landi en það er í samræmi við það sem er að gerast um allan heim. Íþróttin er einföld og felst í því að koma frisbídisk í mark í sem fæstum köstum. Oftast er markið karfa en getur verið í raun hvað sem er s.s. staur, tré, tunna eða hvað sem auðvelt er að kasta í.
Sérstakir frisbígolfdiskar eru hentugastir en þeir eru yfirleitt minni og þyngri en hefðbundnir frisbídiskar og fljúga því lengra og nákvæmar auk þess að þola vind mun betur. Bestu spilararnir geta kastað folfdisk yfir 150 metra með góðri nákvæmni.
Nú eru 57 frisbígolfvellir á Íslandi og frítt er að spila á þeim öllum. Völlum fer fjölgandi enda ódýrt fyrir sveitarfélög að koma upp velli og viðhald lítið sem ekkert.
Drífðu þig endilega í að prófa þetta skemmtilega sport og taktu vinina með. Ef það er ekki völlur í þinni heimabyggð er ekkert annað að gera en að banka upp hjá bæjarstjóranum og hvetja hann til að setja upp völl.
Ef ykkur vantar aðstoð eða upplýsingar sendið þá póst á folf@folf.is

Aldrei fleiri keppnir

Mótaskrá fyrir árið 2019 liggur fyrir og má með sanni segja að það sé veisla fyrir keppendur í frisbígolfi því samtals verða yfir 1000 mót á árinu.

Mótaskrá 2019

Janúar

Áramótið  6. janúar – Gufunesvöllur

Mars

Úlli kaldi 16. mars – Úlfljótsvatn

Maí

Vormót Frisbígolfbúðarinnar  11.-12. maí – Texasfyrirkomulag

Reykjavík Open 24.-26. maí – (Íslandsbikarinn 1)

Júní

Úlli ljóti  9. júní – Úlfljótsvatn

Iceland Solstice  21.- 23. júní (Íslandsbikarinn 2)

Júlí

Norðurlandsmótið 5.-7. júlí – Hamrar o.fl – FGA og Samherjar (Íslandsbikarinn 3)

Sexton Shootout 13.-14. júlí – RDG

Styrktarmót Blæs 27. júlí – RDG

Ágúst

17.-18. ágúst  – Íslandsbikarinn 4 – ÍFS

September

Íslandsmót 2019  20.-22. september – (Íslandsbikarinn 5)

Úllil ljóti 2   28. sept – Úlfljótsvatn

Auk þess verða:
Þriðjudagsdeild – maí til september (25)

Fimmtudagsdeild – júní til ágúst (5)

Trilogy Challenge mót (1)

Ace Race Discraft (1)

Texas bikarinn – mótaröð RDG – byrjar 18. maí (2×5)

Haustmótaröð – október til desember (13)

Ljósamótaröð – sept til mars (15)

Bjartsýniskast – janúar til apríl (12)

Kvennamót

Barnamót

Önnur mót (10)

Aðalfundur ÍFS

Aðalfundur Íslenska frisbígolfsambandsins verður haldinn mánudaginn 18. mars næstkomandi í hlöðunni í Gufunesi og hefst kl. 20. Hefðbundin aðalfundarstörf. Mótaskrá fyrir 2019 verður kynnt og farið yfir ýmislegt spennandi sem framundan er í frisbígolfinu á þessu ári.
Allir velkomnir – kaffi og kökur.

Glittir í vorið

Nú styttist í að veturinn gefi eftir en vorið er greinilega handan við hornið. Þá rennur upp mikill uppáhaldstími allra frisbígolfspilara þegar dagurinn lengist og við losnum við snjó og hálku sem hefur verið að trufla okkur í vetur. Með auknum áhuga á frisbígolfi og betri völlum (uppbyggðir teigar með góðu yfirborði) má segja að vetrarspilamennska sé orðin mjög almenn en í vetur hefur stór hópur spilað reglulega og og mót hafa verið haldin 1-2 sinnum í viku.
Góðir teigar eru lykilatriði í því að geta spilað allt árið en þessir heilsársteigar eru frekar ódýr lausn til þess að nýta betur vellina, auka öryggi spilara og verja viðkvæman jarðveg á vorin og haustin. Við vonum að sem flest sveitarfélög útbúa góða teiga á sína folfvelli sem komnir eru.

Æfingin skapar meistarann

Eins og í öllum íþróttum þá geta allir bætt getu sína í frisbígolfi með æfingum. Þeir sem spila mest ná betri tökum á frisbígolfi og verða yfirleitt betri á öllum sviðum sportsins. Yfirleitt er talað um þrjá ólíka kastflokka í folfi, langskotin (drive), miðskotin (approach) og púttin. Gott er að æfa þessi köst í sitthvoru lagi og læra þannig vel á diskana.
Oft er talað um að púttin séu mikilvægustu köstin en þau eru líka auðveldast að æfa. Eitt stutt pútt telur jafn mikið á skorkortinu og 100 metra langskot.
Við hvetjum alla til að gefa sér tíma og æfa ólík köst, forhönd og bakhönd, og læra þannig vel á diskana sína því æfingin skapar meistarann. Nú eru hafnar innanhúsæfingar hjá Frisbígolffélagi Reykjavíkur en þær fara fram á fimmtudagskvöldum kl. 20 í Ingunnarskóla í Grafarholti.

Spilað í skammdeginu

Það eru ekki allir sem vita að hægt er að spila frisbígolf í myrkri. Sérstök ljós eru þá sett neðan á diskana þannig að auðvelt er að finna þá en þessi ljós eru mjög létt og hafa lítil áhrif á svif disksins. Oft nægir að setja ljósin á dræverinn þar sem pútterinn týnist varla. Margir vellir eru með ágætri lýsingu þannig að auðvelt er að sjá körfurnar og hvetjum við alla til að prófa. Ljósin er hægt að fá bæði hjá FUZZ og Frisbígolfbúðinni.
Þess má geta að öll þriðjudagskvöld eru sérstök ljósamót haldin á höfuðborgarsvæðinu en þá eru batteríisljós sett á körfurnar til að sjá þær betur.