Öflugt frisbígolfsumar hjá FGA!

Nú þegar snjórinn er loksins farinn að minnka á Norðurlandi er frisbígolffélagið þar að fara af stað með metnaðarfullt starf þar sem finna má ýmislegt fyrir alla.

Akureyrarbikarinn
Akureyrarbikarinn verður haldinn eftirtalda sunnudaga í sumar en spilað verður á öllum 7 völlum sem eru í boði á Akureyri og nágrenni. Mótin eru:

23. apríl – Hrafnagil
7. maí – Svalbarðseyri
28. maí – Hamarkotstún
11. júní – Háskólavöllur
2. júlí – Verkmenntaskólinn
6. ágúst – Hrísey
3. september – Hamrar

Sunnudagsdeildin
Sú nýjung verður í sumar að boðið verður upp á sunnudagsdeild alla þá sunnudaga sem ekkert annað mót er á dagsskrá. Sunnudagsdeildin er ætluð fyrir alla frisbígolfara Akureyrar og nágrennis og er góð leið fyrir alla sem vilja prófa keppnisfolf. Frítt verður á mótin.

Spilað verður á fjórum völlum til skiptis en þetta eru vellirnir á Hrafnagili, Svalbarðseyri, Verkmenntaskólanum og Háskólavellinum.

Þriðjudagsdeildin
Þriðjudagsdeild verður haldin í sumar og byrjar um leið og aðstæður leyfa.

Íslandsbikar ÍFS
Þjú mót verða í Íslandsbikarnum hér á Akureyri, tvö í Gullmótaröðinni og eitt í Silfurmótaröðinni.

Gullmót ÍFS – Akureyri Open 2.-4. júní
Gullmót ÍFS – Norðurlandsmótið 21.-23. júlí
Silfurmót ÍFS – Háskólavellinum á Akureyri 26.-27.ágúst

Upplýsingar um mótin verða á Facebook síðu FGA en einnig á vefsíðunni www.fga.is og hvetjum við alla til að fylgjast vel með og taka þátt.

Hægt er að skrá sig í Frisbígolffélag Akureyrar á þessari vefslóð: https://fga.is/skra-i-felagid/

Alvöru bisness

Gott dæmi um vöxt frisbígolfs í heiminum má sjá í fjölda þeirra fyrirtækja sem framleiða og selja folfdiska. Oft er talað um þessa fjóra stóru í þessu samhengi en það eru Innova, Discraft, Latitude 64 og Discmania en auk þeirra eru yfir 40 framleiðendur af diskum þó að líklegt sé að þeir gætu verið töluvert fleiri. Sumir af stærri aðilunum framleiða fyrir önnur merki og sem dæmi hefur Innova framleitt diska fyrir Dismania, Millennium, Infinite og Hyzer Bombs.

Mörg ný merki hafa sprottið fram undanfarið og hafa strax náð ágætum árangri og eru sum þeirra strax fáanleg hér á landi. Aukinn hagnaður þessara fyrirtækja hefur einnig skilað sér í hærri samningum við bestu spilarana en metupphæðir hafa verið greiddar undanfarin ár og er 10 milljón dollara samningur Discraft við Paul McBeth dæmi um það sem og stórir samningar við Ricky Wisocky og Paige Pierce. Frisbígolfið er því orðinn öflugur atvinnuvegur -alvöru bisness.

Frisbígolf um allt land!

Nú er rétti tíminn til að panta og undirbúa hönnun og uppsetningu á nýjum frisbígolfvelli fyrir sumarið. Nú eru komnir yfir 90 vellir um allt land og vinsældir frisbígolfsins halda áfram að aukast enda frábær íþrótt fyrir alla aldurshópa og góð hreyfing sem hægt er að stunda allt árið.

Hafðu strax samband við þitt sveitarfélag og hvettu þau til dáða, það er ekki seinna vænna en að fjárfesta í heilsunni og setja upp völl. Hafið endilega samband við okkur hjá ÍFS á folf@folf.is ef ykkur vantar aðstoð, ráðgjöf eða hönnun.

Frisbígolf – einfalt, ódýrt og alveg ótrúlega vinsælt!

Nýtt merki PDGA

Nýlega var kynnt nýtt merki PDGA – Professional Disc Golf Association sem eru þau samtök sem halda utan um skipulag frisbígolfs í heiminum s.s. reglur, mótahald, stigagjöf ofl.

Samkvæmt skýringum sem koma frá PDGA þá táknar nýja merkið nýtt upphaf og í því kemur fram útlit fljúgandi disks, sjóndeildarhringur jarðar, sólarupprás nýs dags og körfukeðjur sem tákna meðal annars tengingar frisbígolfssamfélagsins.

Hér má sjá nokkur af gömlu merkjum PDGA.

Dagurinn lengist!

Nú erum við Íslendingar farin að finna fyrir aukinni birtu og lengri daga enda vorið handan við hornið. Við sjáum að flestir folfvellir eru mikið notaðir í vetur þó að snjór og hálka hafi gert mörgum lífið leitt enda auðvelt að spila íþróttina alla mánuði ársins og körfurnar grípa diskana vel svo fremi sem þær standi upp úr snjónum. Góður fatnaður og mannbroddar geta komið sér vel þessa dagana.

Vetrarspilun

Vetrarfolf er auðveldara en margir halda því margir vellir eru mjög aðgengilegir allt árið. Heilsársteigar hjálpa mikið því þeir eru góðir í snjó og hálku og standa oft upp úr snjór, drullu og klaka. Ef spilað er í snjó er gott að hafa litaða diska og ef laus þurr snjór er á vellinum er frábært ráð að líma 1,5-2 metra pakkaborða (jólaborða) neðan í diskinn sem gerir auðveldara að finna hann. Drífið ykkur í úlpurnar og takið hring í þessum skemmtilegu vetraraðstæðum sem nú eru á Íslandi.

Gleðilega hátíð

ÍFS sendir öllum folfurum bestu jóla- og nýárskveðjur með von um að árið hafi verið gott með mikilli frisbígolfástundun og með ósk um að köstum fækki nokkuð á nýju ári.

Takk fyrir okkur.

Veturinn er mættur

Loksins skall veturinn á með látum og þá er ekkert annað að gera en klæða sig upp, skilja hvítu diskana eftir heima og skella sér hring á einhverjum 92 valla sem nú eru í boði hér á landi.

Veðurblíða

Það hefur ekki farið fram hjá neinum það milda haust sem leikið hefur landið undanfarnar vikur og folfarar hafa nýtt tækifærið vel því flestir vellir eru vel notaðir þessa dagana. Við hvetjum alla til þess að skella sér út og taka hring en það er einstakt að kasta diskunum þegar sólir er lágt á lofti.