Núna er nýlokið formlegri mótaröð ÍFS en í september var haldið Íslandsmót, síðasta mánaðarmótið og hið árlega Úlla ljóta mót sem var haldið við frábærar aðstæður á vellinum á Úlfljótsvatni. Á sama tíma var haldin lengdarkeppni en sigurvegari hennar varð Ari Jónsson sem kastaði lengst allra eða 112 metra og pútttkeppni þar sem púttmeistari ársins varð Pálmi Pétursson.
Author Archives: folf.is
Vel heppnað Íslandsmót
Helgina 5.-7. september var Íslandsmótið í frisbígolfi haldið en met var slegið í þátttökufjölda. Á föstudeginum var Íslandsmótið í Texas scramble og kepptu 37 lið með 74 þátttakendum. A- og B- flokkar kepptu á laugardeginum með 26 keppendum og á sunnudeginum var keppt í Kvenna-, barna- og C-flokki með 33 keppendum.
Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki urðu þau Þorvaldur Þórarinsson og Guðbjörg Ragnarsdóttir. Öll úrslitin má sjá hér.
Eiginleikar frisbígolfdiska
Flestir líta á frisbídiska sem frekar einfalda hönnun þar sem flestir diskar líta svipað út en það er alls ekki raunin. Um er að ræða flókna hönnun og mikið úrval mismunandi diska með ólíka flugeiginleika, sérstaklega í frisbígolfinu. Við fundum skemmtilega grein frá óháðum aðila sem skýrir fjögurra númera kerfið mjög vel en það er algengasta kerfið til að greina eiginleika diska. Nokkrir stórir framleiðendur nota það s.s. Innova, Lattitute 64, Dynamic Discs, Westside og Legacy. En hvað þýða þessar fjórar tölur sem stiplaðar eru á suma diska. Tölurnar tákna hraða, svif, beygju og lokasvif. (Speed, glide, turn, fade)
Hraði
Hann er mældur frá 1-13 og er í raun mikilvægasta talan því hinar þrjár tölurnar byggjast allar á henni. Þessi tala er líka mest misskilda stærðin því margir spilarar, sérstaklega byrjendur, halda að þetta sé sá hraði sem diskurinn fljúgi á. Það er auðvitað eðlilegur misskilningur. Það rétta er að hraðatalan er sá hraði sem þú þarft að kasta disknum á til þess að hann hagi sér eins og til er ætlast þ.e. til þess að hinar tölurnar séu réttar. Því hærri sem talan er því hraðar þarftu að kasta disknum til þess að hann fljúgi eins og hann er hannaður til.
Hraðatalan segir einnig til um það hvort diskur er pútter, midrange eða dræver. Pútterar hafa hraðann 1-3, midrange eru með hraðann 4 eða 5 á meðan dræverum er yfirleitt skipt upp í tvo flokka, brautar-dræverar og lang-dræverar (fairway og distance). Brautar-dræverar eru yfirleitt með hraðann 6-8 en lang-dræverar eru 9-13. Hraðatalan skiptir miklu máli því ef kastarinn nær ekki að kasta disknum á þeim hraða sem hann er gerður fyrir þá virka ekki hinir eiginleikar disksins á þann hátt sem gefið er upp. Ef disknum er kastað á of litlum hraða verður hann oftast yfirstöðugur og leitar þá of mikið til vinstri.
Svif
Svifið er líklega það sem er auðveldast að skilja í flugi diska en það þýðir einfaldlega svifið sem diskurinn hefur á flugi. Svifið er mælt á skalanum 1-7 en flestir diskar eru á bilinu 4-6. Því hærri sem talan er því meira svif hefur hann.
Beygja
Þriðja talan er skali sem er notaður um hversu mikið diskurinn beygir á flugi rétt eftir að hann leggur af stað, veltir sér til vinstri eða hægri. Stundum er líka talað um stöðuleika disksins á miklum hraða. (High speed Stability-HSS). Oft er talað um þrjá meginflokka í þessu samhengi; yfirstöðugan (overstable), stöðugan (stable) og undirstöðugan (understable). Skalinn er frá +1 til -5 en flestir diskar eru á bilinu 0 til -3.
Til að skýra tölurnar þá miðum við t.d. við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast en fyrir hann er +1 yfirstöðugur diskur og veltir sér því strax til vinstri, 0 er stöðugur diskur og fer því beint en mínustölur flokka diskinn sem undirstöðugann og þá leitar diskurinn strax til hægri eftir að honum er sleppt.
Undirstöðugir diskar eru frábærir fyrir byrjendur sem ná ekki þeim hraða og eiginleikum úr disknum sem vanari spilarar geta og fara því diskarnir oft frekar beint í flugi sínu sem er mikill kostur.
Lokasvif
Síðasta talan táknar svif disksins á litlum hraða eða LSS-Low Speed Stability. Lokasvifið þýðir hversu fljótt diskurinn byrjar að beygja til vinstri þegar hægist á honum. Skalinn er á bilinu 0-6 en talan 0 þýðir að diskurinn lendir í nokkur beinni líni á meðan diskur með töluna 6 tekur krappa beygju til vinstri rétt fyrir lendingu. (miðað við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast).
Þetta þýðir að ef við erum með disk með tölunum 8, 4, -2, 3 þá er þetta brautardræver með nokkuð miklu svifi. Þegar disknum er kastað þá flýgur hann í svokallaða S-kúrfu þ.e. rétt eftir að honum er sleppt þá leitar hann til hægri en um leið og hraðinn á honum minnkar þá kemur hann til vinstri.
Gufunesvöllur endurbættur
Nú í sumar var frisbígolfvöllurinn í Gufunesi tekinn í gegn og endurbættur á marga vegu. Fyrstu körfurnar voru settar þar í júlí 2003 þegar þar var tekinn í gagnið 9 brauta völlur sem var sá fyrsti í Reykjavík og markaði tímamót fyrir okkur spilara. Seinna var hann stækkaður en í dag er þetta eini 18 brauta völlur landsins. Völlurinn er svokallaður náttúruvöllur þ.e. hann liggur í náttúrulegu umhverfi og því er auðveldara að týna diskum en á völlunum í almenningsgörðunum. Því er nauðsynlegt að “spotta” þegar spilað er.
Í sumar var völlurinn endurhannaður þar sem bestu brautirnar voru látnar halda sér en nýjum bættum við. Einnig var skipt um allar körfur og settir þrír teigar á hverja braut.
Það sem gert var í sumar:
- Nýjar Innova Discatcer körfur.
- Þrír teigar á hverja braut. (Rauðir, hvítir og bláir.)
- Bláu teigarnir (erfiðustu) voru jarðvegsskiptir og sett á gervigras fyrir betra grip.
- Nákvæmar merkingar settar á allar brautir.
- Brautirnar slegnar meira en áður og farið í öflugri trjáklippingar.
Endurbótunum lauk nú í lok ágúst og má segja að Gufunesvöllur hafi aldrei verið betri enda Íslandsmótið á næsta leiti. Við hvetjum alla til að prófa þennan frábæra völl og velja auðvitað teiga við hæfi.
Nýju vellirnir slá í gegn
Mjög ánægjulegt er að sjá þann mikla fjölda fólks sem er að uppgvöta frisbígolf síðustu mánuði. Mikil aukning hefur orðið síðan við opnuðum nýju vellina þrá í Reykjavík þ.e. í Laugardal, í Fossvogsdal og í Breiðholti og greinilegt að almenningur tekur þessari viðbót við afþreyingu fagnandi. Gaman er að sjá fólk á öllum aldri spila folf og áberandi er að fjölskyldur eru byrjaðar að spila enda frisbígolf hentugt öllum aldurshópum. Fjölbreyttir teigar eru skemmtileg leið til að jafna út getumuninn. Við vonum að veðrið haldist gott langt fram á haust fyrir áhugasama spilara.
Íslandsmótið 2014
Helgina 5.-7. september nk. verður Íslandsmótið í frisbígolfi haldið og hefst á föstudeginum með Íslandsmóti í Texas Scramble sem er einskonar upphitun fyrir helgina. Tveir eru í liði og kasta báðir en betra kastið er látið gilda. Keppt verður í þetta sinn á þremur völlum, á föstudeginum verður keppt á Klambratúnsvelli sem og á sunnudeginum í C-, kvenna- og barnaflokki. Klambravöllur er orðinn heimavöllur margra spilara og því ákváðum við að halda hluta mótsins þar. Við vonumst til að sem flestir taki þátt enda mótið miðað við bæði byrjendur og vanari folfara. Nánari upplýsingar um mótið má sækja hér: folf íslandsmót 2014b.
Borgarstjóri opnar nýja velli
Í dag 21. ágúst 2014 tók Dagur B. Eggertsson borgarstjóri formlega í notkun nýju frisbígolfvellina í Reykjavík með því að kasta fyrstu brautirnar. Dagur sýndir lipur tilþrif enda gamall handboltamaður og fór braut 3 á pari. Honum fannst greinilega gaman að diskakasti og ætlaði að mæta með börnin sín þarna fljótlega. ÍFS gaf honum disk með áritaðri dagsetningu sem hann kemur vonandi til með að prófa.
Nýju vellirnir í Reykjavík eru í Laugardal, Fossvogsdal og Breiðholti en tillögur um vellina komu til borgarinnar í gegnum átakið “Betri hverfi”.
Ágúst mánaðarmót
Fimmtudaginn 21. ágúst verður haldið mót á vellinum í Gufunesi en þessi mót eru alltaf haldin þriðja fimmtudag í hverjum mánuði yfir sumartímann. Mótið hefst kl. 19 og mæting kl. 18.30. Keppt verður í öllum flokkum þ.e. A- og B-flokkar sem spilaðir eru af bláum teigum, C- flokkur (byrjenda), kvenna og barnaflokkur eru spilaðir af rauðum teigum. Gufunesvöllurinn er í mjög góðu standi þessa dagana en nýbúið er að slá allar brautir. Við hvetjum alla til að taka þátt.
Paul McBeth heimsmeistari í þriðja sinn
Á heimsmeistaramótinu í frisbígolfi sem var haldið um miðjan ágúst í Portland, Oregon varði tvöfaldur heimsmeistari tiltilinn og vann í þriðja sinn í röð. Aðeins Ken Climo hefur unnið oftar eða samtals 12 sinnum (þarf af 9 sinnum í röð). Keppnin í ár var æsispennandi og þurfti bráðabana til að fá úrslit. Allt var jafnt þar til á 5. braut þegar keppinautur hans Richard Wisocki kastaði í tré og tapaði þar einu kasti á Paul sem dugði til. Nathan Doss varð þriðji og Paul Ulibarri fjórði en þeir eru allir Bandaríkjamenn. Ken Climo sigraði í mastersflokki og í kvennaflokki sigraði Catrina Allen. Met fjöldi fylgdist með mótinu og sýnt var beint frá henni í sjónvarpi. Þess má geta að íslandsvinirnir stóðu sig vel, Simon Lizotte hafnaði í 13. sæti og Avery Jenkins í því 23.
16 frisbígolfvellir
Nú um miðjan ágúst geta íslenskir frisbígolfspilarar valið úr 16 folfvöllum til að spila á hér á landi. Síðustu daga og vikur hafa nýjustu vellirnir verið að rísa og nýjustu vellirnir í Reykjavík sem eru í Fossvogsdal, Laugardal og Breiðholti (efst í Elliðaárdal) hafa strax hlotið feiknagóðar viðtökur og fjöldi fólks farnir að spila á völlunum nú þegar. Nýju vellirnir eru góð viðbót við Klambratúnsvöllinn sem er orðinn mjög þétt setinn á góðviðrisdögum. Þessu til viðbótar er áætlað að vellirnir á Húsavík og Bifröst opni á næstunni.
Með tilkomu allra þessara valla hefur fjölbreyttnin aukist gríðarlega og nú má segja að hver spilari geti fundið völl við sinn smekk. Við höfum reynt að hanna vellina þannig að þeir séu ólíkir og hafi hver sinn stíl. Kort af völlunum er hér á síðunni undir flipanum “vellir”.
Á nýju völlunum eru alltaf fleiri en einn teigur á hverri braut, léttari fyrir byrjendur en þyngri fyrir hina. Bjóðið endilega vinum, vinnufélögum eða ættingjum með ykkur og kynnið fyrir þeim þessa frábæru íþrótt.