Gufunesvöllur endurbættur

gufuteigar

Nú í sumar var frisbígolfvöllurinn í Gufunesi tekinn í gegn og endurbættur á marga vegu. Fyrstu körfurnar voru settar þar í júlí 2003 þegar þar var tekinn í gagnið 9 brauta völlur sem var sá fyrsti í Reykjavík og markaði tímamót fyrir okkur spilara. Seinna var hann stækkaður en í dag er þetta eini 18 brauta völlur landsins. Völlurinn er svokallaður náttúruvöllur þ.e. hann liggur í náttúrulegu umhverfi og því er auðveldara að týna diskum en á völlunum í almenningsgörðunum. Því er nauðsynlegt að “spotta” þegar spilað er.

Í sumar var völlurinn endurhannaður þar sem bestu brautirnar voru látnar halda sér en nýjum bættum við. Einnig var skipt um allar körfur og settir þrír teigar á hverja braut.

Það sem gert var í sumar:

  • Nýjar Innova Discatcer körfur.
  • Þrír teigar á hverja braut. (Rauðir, hvítir og bláir.)
  • Bláu teigarnir (erfiðustu) voru jarðvegsskiptir og sett á gervigras fyrir betra grip.
  • Nákvæmar merkingar settar á allar brautir.
  • Brautirnar slegnar meira en áður og farið í öflugri trjáklippingar.

Endurbótunum lauk nú í lok ágúst og má segja að Gufunesvöllur hafi aldrei verið betri enda Íslandsmótið á næsta leiti. Við hvetjum alla til að prófa þennan frábæra völl og velja auðvitað teiga við hæfi.