Sjö nýir vellir að bætast við

fossvogurMikill áhugi er hjá sveitarfélögum um að setja upp frisbígolfvelli í sinni heimabyggð og eru mörg þeirra að skoða þennan möguleika enda bendum við á að þetta sé ódýr og einföld leið til að auka fjölbreyttni í afþreyingu fyrir íbúa auk þess sem frisbígolf stuðlar að aukinni hreyfingu og auðvitað lífsgleði.

Nú í sumar er komin staðfesting á sjö nýjum völlum en þeir eru á Egilsstöðum, tveir á Akureyri (Glerárþorp og Eiðsvelli), á Húsavík, í Bolungarvík, á Seltjarnarnesi og í Seljahverfi í Reykjavík (hjá Ölduselsskóla). Þessir vellir bætast við þá 19 sem nú þegar eru á landinu en auk þess eru mörg bæjarfélög jákvæð og gætu tekið ákvörðun í sumar.

Konur og frisbígolf

_MG_3837Greinilegt er að margir eru að uppgötva folfið þessar vikurnar og gaman að sjá öll þessi nýju andlit á völlunum en sérstaklega hefur það vakið athygli okkar hvað konum hefur fjölgað mikið. Nú um helgina fengum við Jenni Eskelinen til þess að halda sérstök kvennanámskeið og var þátttakan frábær en hátt í 50 konur mættu til leiks á námskeiðin tvö. Það er von okkar að konum haldi áfram að fjölga í þessari skemmtilegu íþrótt.

Evrópumeistari kvenna til landsins

xlarge-sm-frisbeegolf

Jenni Eskelinen er 30 ára finnskur íþróttafræðingur og ein af bestu frisbígolfspilurum Evrópu. Hún kynntist frisbígolfi árið 2009 og til að byrja með spilaði sér til gamans með vinahópnum. Þegar hún tók eftir að hún kastaði töluvert lengra en vinirnir fór hún að hugleiða keppnir og árið 2011 tók hún skrefið, keypti fullt af diskum og æfði sig daglega. Hún hafði mikinn áhuga á tækninni við sportið og æfði orðið skipulega. Árið eftir var hún komin í úrslit á Finnska meistaramótinu.

2014 var mjög gott ár fyrir Jenni. Hún keppti í 13 PDGA mótum, komst á verðlaunapall í 10 þeirra og þar af sem sigurvegari á 5 PDGA mótum. Hún toppaði síðan árið í fyrra með því að vinna Evrópumeistarmótið.

Íslenska frisbígolfsambandið í samvinnu við Frisbígolfbúðina hefur samið við Jenni um að koma hingað til lands í sumar og halda námskeið þann 13. júní nk. Sérstök áhersla verður lögð á konur í þessari heimsókn en hún mun halda sér námskeið fyrir þær (kl. 13 og kl. 16) sem ætlað er bæði byrjendum og lengra komnum. Með þessari heimsókn langar okkur að auka áhuga kvenna á þessu frábæra sporti og vonandi grípa þær tækifærið og læra handtökin af þessum snillingi.

Skýrsla PDGA

pdga

Nýlega tók ÍFS, ásamt 26 öðrum samböndum, þátt í könnun á vegum PDGA um stöðu frisbígolfs í heiminum. Spurt var um fjölda spilara, fjölda valla og þau verkefni sem sambandið er að vinna að. Líkt og á Íslandi hefur frisbígolf vaxið hratt á undanförnum árum og skortur á landsvæði fyrir nýja velli er farið að hindra uppbyggingu í sumum löndum. ÍFS er í góðu samstarfi við sveitarfélög á Íslandi og hefur fengið jákvæð viðbrögð um fjölgun valla víðsvegar um landið.

Skýrslu PDGA má nálgast hér: 2015 PDGA International Countries Survey – Report & Analysis

Folfið að komast í gírinn

IMG_9681

Eftir langan vetur og kalt vor er loksins farið að grænka og greinilega er vor í lofti. Vellirnir koma vel undan vetri þó eitthverja teigastaura þurfi að laga hér og þar. Margt stendur til í sumar en þó nokkrir nýjir vellir eru í farvatninu t.d. tveir nýjir á Akureyri, völlur á Húsavík, í Bolungarvík auk vallar í Seljahverfi í Reykjavík. 5-6 bæjarfélög til viðbótar eru líklega að samþykkja velli á næstu vikum þannig að mikið líf verður í þessum málum í sumar. Auk þess er hafin vinna við lagfæringar á Klambratúni og í Gufunesi.

Greinileg aukning er á nýjum spilurum og síðustu vikur hafa vellirnir í Reykjavík verið spilaðir daglega þrátt fyrir misjafnt veður. Það er auðvitað frábært og verður gaman að sjá þróunina á þessum málum, sérstaklega ef veðrir leikur við okkur.

Mótamálin eru komin á fullt og en hægt er að nálgast upplýsingar um þau hér á síðunni undir “keppnir“. Við hvetjum alla til þess að taka þátt í mótum enda gert ráð fyrir reynslulitlum keppendum bæði með flokkaskiptingunni A, B og C en ekki síður forgjöfinni sem við erum nýbúnir að setja í gang.

Forgjöf tekin í notkun á Íslandi

discgolf

Núna í sumar ætlum við að taka í notkun forgjöf í keppnum í fyrsta skipti en til að byrja með verða það þriðjudagsmótin sem Frisbígolfbúðin heldur þar sem forgjöfin verður prófuð.

Tilgangurinn með forgjöf er auðvitað sá að gera mótin jafnari og skemmtilegri. Þannig virkar hún best ef sá vinnur sem á sinn besta dag miðað við getu. Bestu spilarar landsins eru þvi með lága forgjöf en byrjendur háa en forgjöfin á að endurspegla getu spilarans og er þá miðað við hvernig hann hefur spilað á undangengnum mótum þar sem forgjöfin hefur verið mæld.

Hvernig er forgjöf reiknuð úr í frisbígolfi?

Fyrir þá sem vilja skilja útreikninginn betur þá nota alheimssamtökin, PDGA, stigakerfi (ratings) þar sem þeir reikna út getu þeirra sem eru meðlimir sambandsins. Það virkar þannig að góður spilari fær 1.000 stig fyrir góðan hring á samþykktum velli, hvert kast sem aðrir spila betur eða verr en þessi meðalspilari telur 10 stig.

Dæmi: Leikmaður A spilar hringinn á 56 og fær 1.000 stig, leikmaður B spilar á 58 og fær 980 stig, leikmaður C spilar á 55 og fær því 1.010 stig.

Við notum þetta til grundvallar í forgjafarkerfið okkar, hver 10 stig gefa einn í forgjöf, miðað við að par vallar sé 72. Í flestum tilfellum eru vellir hér milli 50 og 60 par og því er forgjöfin aðeins breytileg eftir völlum.

Dæmi: Spilari sem er með 895 stig (PDGA rating) reiknast með 10,5 í forgjöf.              (1.000 stig eru 0 í forgjöf og 1.000 – 895 = 105. Deilt með 10 er 10,5 í forgjöf.)

Ef spilað er á velli með pari 57 væri ofangreindur spilari með 8 í forgjöf á þeim velli (10.5 x 57/72=8,3 sem námundast í 8 í forgjöf.)

Fyrsta mánaðarmótið

_MG_0054Nú virðist veturinn vera að kveðja enda aðeins vika í sumardaginn fyrsta. Margir eru mættir út á vellina til viðbótar við þá sem spiluðu í allan vetur. Vorboðinn okkar eru yfirleitt mánðarmótin en það fyrsta í sumar verður haldið í dag (16. apríl) en þau eru haldin þriðja fimmtudag í hverjum mánuði yfir sumarmánuðina. Mótið verður haldið á vellinum í Mosfellsbæ og hefst kl. 18 en mótsstjóri er Jón Símon Gíslason. Keppt verður án forgjafar og í öllu flokkum sem eru A-, B-, C-, kvenna- og barnaflokkur. Mótsgjald er 2.000 krónur (1.000 krónur fyrir félaga ÍFS).

Veturinn að kveðja

vetrarkarfa

Þrátt fyrir óvenjumikinn lægðagang veðurguðanna í vetur þá hefur sá fjöldi spilara sem stundar frisbígolf yfir þessa köldustu mánuði ársin aldrei verið fleiri. Vetrarfolf er líka mjög auðvelt. Aðeins þarf að klæða sig vel, vera í góðum skóm og nota litsterka diska.

Í skammdeginu er líka hægt að nota litlar ljósadíður sem límdar eru undir diskana og gerir auðvelt að sjá þá og finna. Greinilegt er að margir hafa uppgvötað að frisbígolf er ekki síður skemmtilegt á veturnar heldur en á sumrin þó vissulega sé notalegt að spila í stuttbuxum á góðum sumardegi.   Við hvetjum alla til þess að drífa sig út á næsta völl og prófa áður en veturinn kveður endanlega.

Mótaskráin 2015

IMG_7124

Nú liggur fyrir mótaskráin fyrir árið en hún var kynnt og samþykkt á Aðalfundi ÍFS sem haldinn var fyrr í mánuðinum. Helsta breyting frá síðasta ári er sú að mánaðarmótin (þriðji fimmtudagur í mánuði) breytast flest yfir í Texas fyrirkomulag en það er gert til að gera mótin aðgengilegri fyrir fleiri. Einnig erum við búnir að semja við Frisbígolfbúðina um að halda mótaröð sem nefnist Þriðjudagsdeildin og verður spilað vikulega í þeirri mótaröð. Um leið verður tekið upp stigakerfi (ratings) sem er forgjafakerfi en það verður í fyrsta sinn sem við notum forgjöf hér á landi. Þeir sem vilja forgjöf þurfa að skrá sig hjá PDGA.

Hér er nýja mótaskráin.

Á þessum link geta áhugasamir skráð sig hjá PDGA en árgjaldið þar eru 20 dollarar.

Mikil fjölgun diska

Disc Golf 1

Undanfarin tvö ár hefur orðið mikil fjölgun í framleiðendum frisbídiska enda mikill vöxtur í íþróttinni um allan heim. Þau fyrirtæki sem hafa komið með nýja diska á markaðinn sl. tvö ár eru nú 27 en um helmingur þeirra voru stofnuð á síðustu 3 árum. Á síðasta ári komu 70 nýjir diskar á markaðinn sem samþykktir voru af PDGA en alls eru 686 ólíkir diskar í boði fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast einn af hverjum. Fyrir tíu árum komu rétt um 25 nýjir diskar á ári. Á þessu ári bíða allir spenntir eftir nýjum diskum með tölvuflögum sem gefur möguleika á flugupplýsingum í símann svo ekki sé talað um leitarmöguleikana að týndum diskum.