Forgjöf tekin í notkun á Íslandi

discgolf

Núna í sumar ætlum við að taka í notkun forgjöf í keppnum í fyrsta skipti en til að byrja með verða það þriðjudagsmótin sem Frisbígolfbúðin heldur þar sem forgjöfin verður prófuð.

Tilgangurinn með forgjöf er auðvitað sá að gera mótin jafnari og skemmtilegri. Þannig virkar hún best ef sá vinnur sem á sinn besta dag miðað við getu. Bestu spilarar landsins eru þvi með lága forgjöf en byrjendur háa en forgjöfin á að endurspegla getu spilarans og er þá miðað við hvernig hann hefur spilað á undangengnum mótum þar sem forgjöfin hefur verið mæld.

Hvernig er forgjöf reiknuð úr í frisbígolfi?

Fyrir þá sem vilja skilja útreikninginn betur þá nota alheimssamtökin, PDGA, stigakerfi (ratings) þar sem þeir reikna út getu þeirra sem eru meðlimir sambandsins. Það virkar þannig að góður spilari fær 1.000 stig fyrir góðan hring á samþykktum velli, hvert kast sem aðrir spila betur eða verr en þessi meðalspilari telur 10 stig.

Dæmi: Leikmaður A spilar hringinn á 56 og fær 1.000 stig, leikmaður B spilar á 58 og fær 980 stig, leikmaður C spilar á 55 og fær því 1.010 stig.

Við notum þetta til grundvallar í forgjafarkerfið okkar, hver 10 stig gefa einn í forgjöf, miðað við að par vallar sé 72. Í flestum tilfellum eru vellir hér milli 50 og 60 par og því er forgjöfin aðeins breytileg eftir völlum.

Dæmi: Spilari sem er með 895 stig (PDGA rating) reiknast með 10,5 í forgjöf.              (1.000 stig eru 0 í forgjöf og 1.000 – 895 = 105. Deilt með 10 er 10,5 í forgjöf.)

Ef spilað er á velli með pari 57 væri ofangreindur spilari með 8 í forgjöf á þeim velli (10.5 x 57/72=8,3 sem námundast í 8 í forgjöf.)