Á hverju ári fjölgar frisbígolfvöllum hér á landi en nú er einmitt rétti tíminn til að taka ákvörðun um að setja upp völl næsta sumar. Einfalt er að senda inn erindi til bæjarfélagsins þar sem óskað er eftir að settur verði upp völlur en ástæðurnar eru fjölmargar. Fyrir utan tilbreytingu og fjölbreytni í afþreyingu þá er frisbígolfið sérlega hentugt fyrir alla aldurshópa og auðvelt fyrir hvern sem er að ná tökum á því.
- Ódýrt og einfalt er að setja upp heilan völl. Engar landslagsbreytingar.
- Kostar ekkert að spila á völlunum.
- Búnaður er mjög ódýr, í byrjun nægir einn 2.000 króna frisbídiskur.
- Hentar allt frá börnum til ömmu og afa.
- Hægt að spila í nánast öllum veðrum, allt árið um kring.
- Holl og góð hreyfing. Upplagt lýðheilsuverkefni.
- Hægt að stunda einn eða fara með vinahópnum.
- Færir nýtt líf á svæði þar sem er t.d. skógrækt, útivistarsvæði, almenningsgarðar ofl.
- Viðhald á völlunum er mjög lítið.
Það er því engin spurning að frisbígolfvöllur er frábær viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er. Hafið endilega samband við okkur á folf@folf.is til að fá ráðleggingar eða svör við spurningum. Á kortinu hér við hliðina er hægt að sjá alla velli hér á landi en þeir eru orðnir 45 talsins.
Núna yfir vetrarmánuðina er óhætt af fara að hlakka til vorsins en á hverri viku lengist dagurinn um c.a. 40 mínútur. Þó að snjór sé yfir öllu þá má ekki gleyma því að allir folfvellir landsins eru opnir og það eina sem þarf til þess að spila frisbígolf í þessum aðstæðum eru nokkrir litsterkir diskar, hlýr fatnaður og góðir vinir. Margir eru einnig duglegir að æfa púttin innandyra yfir vetrartímann en hægt er að finna upplýsingar um inniæfingar á FB síðunni okkar
Það er gaman að bera saman uppgang frisbígolfsins á Íslandi miðað við önnur lönd en Bandaríkin og Finnland hafa verið mest í umræðunni þegar kemur að fjölgun valla og grósku í sportinu. Þegar bornar eru saman tölurnar kemur hinsvegar í ljós að hvergi í heiminum eru jafnmargir vellir og á Íslandi miðað við hina frægu höfðatölu.
Einn af kostum frisbígolfs er sá að hægt er að spila það allt árið, óháð veðri. Góður fatnaður og litsterkir diskar virka vel í snjónum og ekki er verra ef félagsskapurinn er skemmtilegur. Fátt er meira hressandi en góður göngutúr á frisbígolfvelli og veðuraðstæður koma jafnt niður á öllum spilurum.
Nú þegar sumarið er á enda er vert að minna á að haustið er frábær tími til að spila frisbígolf. Hauststillurnar eru góðar og þó að dagur sé styttri þá er upplagt að taka hring og halda sér þannig við. Margir vellir eru með góða teiga, gerfigras eða hellur, sem eru mjög hentugir í bleytunni.
Um síðustu helgi var haldið glæsilegt Íslandsmót í frisbígolfi en fyrsta Íslandsmótið var haldið árið 2002. Keppt var í 7 flokkum auk þess sem keppt var í Texas scramble á föstudeginum. Þátttaka var mjög góð og veður fjölbreytt.
Næstu helgi verður haldið Íslandsmótið i frisbígolfi en þetta er í 13. skiptið sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn. Með mikilli fjölgun valla og spilara hefur keppnin aukist mikið en óhætt er að segja að aldrei hafa fleiri átt möguleika að vinna titilinn en á þessu ári.
Stærsta mót ársins er að sjálfsögðu Íslandsmótið í frisbígolfi en það verður haldið fyrstu helgina í september. Við bjóðum í ár upp á 7 flokka þar sem tekið er tillit til styrkleika og áhuga keppenda sem er að sjálfsögðu misjafn. Við hvetjum alla folfara til að taka þátt í þessu skemmtilega móti, hvort sem þið eruð nýlega byrjuð eða búin að keppa í mörg ár. Nánari upplýsingar og dagskrá mótsins má finna hér á síðunni undir flokknum “keppnir”.
Mikil fjölgun hefur orðið á frisbígolfvöllum í sumar en alls bætast við 12 nýjir vellir við þá 30 sem fyrir eru. Flestir þessir vellir eru komnir í notkun en þó eru einhverjir sem enn eru í framkvæmdarferli. Nú eru komnir vellir í alla landshluta og því ætti að vera stutt í næsta völl fyrir flesta. Við hvetjum spilara og áhugafólk um frisbígólf að hafa samband við sitt bæjarfélag og hvetja til þess að settur verði upp völlur.
Þessa dagana er heimsmeistarinn í frisbígolfi, Ricky Wysocky, staddur hér á landi en Ricky vann einmitt heimsmeistartitilinn í annað skiptið um síðustu helgi. Hann er fæddur 1993 í Ohio í Bandaríkjnunum og hefur verið atvinnumaður í folfi síðan 2010.