Hver tekur bikarinn í ár?

 

Næstu helgi verður haldið Íslandsmótið i frisbígolfi en þetta er í 13. skiptið sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn. Með mikilli fjölgun valla og spilara hefur keppnin aukist mikið en óhætt er að segja að aldrei hafa fleiri átt möguleika að vinna titilinn en á þessu ári.

Núverandi Íslandsmeistari í opnum flokki er Þorsteinn Óli Valdimarsson og er hann alltaf líklegur til sigurs á þeim mótum sem hann keppir í. Hann fær þó sterka samkeppni frá þeim sem hann hefur keppt við undanfarin ár og eru þar Jón Símon Gíslason, Þorvaldur Þórarinsson og Ástvaldur Einar Jónsson líklegir í verðlaunasæti þetta árið en Jón Símon og Þorvaldur eru fyrrum Íslandsmeistarar. Unga kynslóðin kemur líka sterk inn en hann Blær Örn Ásgeirsson hefur átt frábært ár og er til alls líklegur auk þess sem Bjarni Þór Bjarnason hefur verið að stórbæta sig undanfarið en þessir strákar eru aðeins 14 og 15 ára gamlir. Auk þessara 6 sem nefndir eru hér að ofan er annar eins hópur sem auðveldlega getur blandað sér í toppbaráttuna á góðum degi.

Í kvennaflokknum hefur baráttan undanfarið aðallega staðið á milli núverandi Íslandsmeistara, Kolbrúnar Mist Pálsdóttur og Guðbjargar Ragnarsdóttur en hún er margfaldur Íslandsmeistari.

Þetta verður því spennandi mót og hörkubarátta um efstu sætin.