Spilað að vetri til

Nú er vetur á Íslandi og snjór og klaki þekur stóran hluta landsins. Það stoppar þó ekki frisbígolfara að stunda sína íþrótt því mjög auðvelt er að spila folf yfir vetrarmánuðina.
Þegar spilað er í snjó er auðvitað gott ráð að skilja hvítu diskana eftir heima og fylgjast vel með því hvar diskarnir lenda. Gormar eða léttir mannbroddar eru upplagðir þegar klaki og ís er á völlunum en margir af nýrri völlum eru með góða heilsársteiga sem koma sér vel í vetraraðstæðum.
Einnig er hægt að spila í myrkri en þá er upplagt að líma lítil og þunn ljós neðan á diskinn sem auðveldar leit að honum.
Við hvetjum alla til að prófa að spila yfir veturinn og klæða sig eftir aðstæðum.