Elsti völlurinn fær andlitslyftingu

Nú er lokið stækkun á frisbígolfvellinum á Úlfljótsvatni sem nú er orðinn 18 brauta og gríðarlega skemmtilegur og fjölbreyttur. Þessi fyrsti völlur landsins var settur upp sumarið 2002 og er vel við hæfi að hann stækki á tuttugu ára afmæli sínu en hann er sjöundi 18 brauta völlur landsins.

Breytingin á vellinum snýr ekki aðeins að stækkun úr 10 í 18 brautir heldur eru nú færðar þær brautir sem lágu við eða inn á tjaldsvæðinu þannig að nú skarast völlurinn ekki á við aðra starfsemi á staðnum. Þrjár brautir halda sér óbreyttar frá gamla vellinum og verða núna nr. 16, 17 og 18 en auk þess eru tvær brautir sem snúast við og fá ný númer 7 og 8. Völlurinn er mjög fjölbreyttur með margvíslegum áskorunum fyrir spilara s.s. trjágöng, hæðarmun, körfu við vatnið, aðra upp á gámnum auk síðustu þriggja niður með læknum.

Þrír teigar eru á hverri braut, blár sem er erfiðastur, hvítur og svo rauður sem er léttasti teigurinn.

Við skorum á alla að heimsækja Úlfljótsvatn og prófa völlinn.