Besti folfvöllur landsins?

Metnaðarfullar áætlanir eru nú í gangi um að búinn verði til einn flottasti frisbígolfvöllur landsins í Leirdal í Grafarholti. Völlurinn, sem verður 18 brauta, á að byggja á gríðalega flottu svæði þar sem bæði er gróið skóglendi en einnig opnar grasflatir og því fjölbreyttni brauta mikið.

Á vellinum verða þrír flottir teigar á hverri braut með heilsársgervigrasi en mismunandi teigar henta vel ólíkum spilurum, rauðir eru léttastir, hvítir eru erfiðari en bláir erfiðastir. Á landinu eru núna 57 folfvellir en aðeins tveir af þeim eru með 18 brautir og því orðið brýnt að fjölga þeim. Síðasta sumar var lokið við að klára 9 brauta völlinn í Leirdalnum og er það okkar ósk að stækka hann í 18 brautir á næsta ári.

Frisbígolfið hefur verið í mikilli uppbyggingu á síðustu árum og aldrei hafa fleiri spilað þetta skemmtilega sport. Okkur finnst því mikilvægt að búa til betri velli sem hægt er að nota allt árið og virka bæði fyrir þá sem eru að byrja en einnig sem keppnisvöllur fyrir þá bestu.

Nú er verið að kjósa um þennan nýja völl þ.e. stækkun úr 9 í 18 í verkefninu Hverfið mitt í Reykjavík og geta allir íbúar borgarinnar tekið þátt. Við hvetjum auðvitað sem flesta til þess en kosningu líkur 30. október og fá þannig einn flottasta folfvöll landsins.

Hægt er að kjósa hér: https://kosning2018.reykjavik.is/#/area-ballot/3