Aðalfundur ÍFS 2017

Þann 30. mars sl. var haldinn aðalfundur ÍFS og var hann vel sóttur. Farið var í gegnum verkefni síðasta árs sem var það besta í sögu frisbígolfsins frá upphafi. Aldrei hafa fleiri stundað sportið og vellirnir eru orðnir 30. Á síðasta ári voru haldin rúmlega 60 folfmót sem er líka met. Kynnt var áframhaldandi uppbygging á sportinu fyrir þetta ár en gert er ráð fyrir að amk. 8 nýjir vellir komi upp í sumar. Einnig var kynnt mótaskrá fyrir árið en sérstök kvennamótaröð verður prófuð í sumar og er það von okkar að það auki þátttöku kvenna. Ný stjórn var kosin en þar kom Halldór Þór inn fyrir Kristinn Arnar sem gaf ekki kost á sér áfram. Stjórnina skipa Birgir Ómarsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Jón Símon Gíslason, Árni Sigurjónsson og Halldór Þór Helgason

Flott barna- og unglingastarf í Eyjafirði

Þessi hressi hópur hefur stundað vikulegar æfingar innanhúss í vetur að Hrafnagili í Eyjafirði. Nú eru æfingarnar að færast út enda veðrið farið að leyfa það. Tveir hópar hafa verið að æfa í vetur með Umf. Samherja og náðum við að grípa seinni hópinn á æfingu en þeir voru einmitt að prófa nýja vallarhönnun en í vor kemur þarna 9 brauta völlur sem verður þá 32. völlurinn á landinu. Flott framtak og til fyrirmyndar.

Vetrarfolf

Einn af kostum við okkar frábæra sport er möguleiki á heilsársiðkun. Þó að auðveldast sé að stunda frisbígolf að sumarlagi þá er líka mjög skemmtilegt að spila við vetraraðstæður. Passa þarf vel að nota litríka diska sem auðvelt er að finna og auðvitað fatnað við hæfi. Nú þegar veturinn er kominn af krafti hvetjum við alla til að prófa en fylgjast vel með hvar diskarnir lenda til þess að auðvelda leitina.

Frábært ár að baki

Nú er að líða eitt besta árið í sögu frisbígolfsins, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Algjör sprenging hefur orðið í sportinu hér heima, völlunum fjölgar ár frá ári og nýjir spilarar bætast í þetta frábæra sport. Það lítur út fyrir að í jólapökkum þessi jólin hafi verið mörg loforð um nýja velli á næsta ári og það er því spennandi ár framundan.

Finnar eru folfarar

15538381_1031569066965481_8547061300738392064_nÞað hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu frisbígolfíþróttarinnar í Finnlandi síðustu 10 ár. Þó að við séum ánægð hér á Íslandi með okkar 30 velli þá var nýlega opnaður 575undasti völlurinn í Finnlandi. Þar af hafa 70 vellir komið á síðustu tveimur árum.
Held að íslenskir folfarar ættu að skipuleggja næsta sumarfrí til frænda okkar í Finnlandi.

Frábæru ári að ljúka

img_7365Árið 2016 hefur verið frábært fyrir frisbígolfið og ánægjulegt að sjá hversu mörg ný andlit sáust á völlunum um allt land. Þrír nýjir vellir voru opnaðir og vinsælustu vellirnir voru troðfullir flesta góðviðrisdaga í sumar. Þannig var oftast biðröð á fyrsta teig á Klambratúni sem er okkar vinsælasti völlur. Aldrei hafa fleiri mót og keppnir verið haldin en á þessu ári en þau yrði yfir 60 sem er mikil fjölgun frá því í fyrra. Um síðustu helgi lauk haustmótaröðinni 999 þar sem spilað var á þeim 9 völlum sem nú eru komnir á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Við lítum bjartsýnum augum á næsta ár en nú þegar er staðfest að margir nýjir vellir verða settir upp og sá fyrsti af þeim mun koma í vetur í Kópavogsdalnum. Nokkur mót verða einnig í vetur en það fyrsta er hið árlega Áramót sem ávallt er haldið í Gufunesi, fyrsta sunnudag ársins kl. 13. Svo skemmtilega vill til að sá dagur er núna 1. janúar. Fyrstu helgina í júlí verður haldið hér alþjóðlegt mót á Gufunesvelli þar sem okkar bestu menn munu spreyta sig á móti erlendum keppendum.

Sífellt fleiri eru farnir að selja diska og búnað fyrir sportið en sá nýjasti er Intersport sem þegar er farinn að auglýsa í dagblöðum. Það hefur því aldrei verið auðveldara að kaupa folfdiska og mjög skemmtilegir tímar framundan.

Hverjir eru bestir síðustu 10 ár?

dave-and-valPDGA (Professional Disc Golf Association) gefur reglulega út lista yfir stöðu skráðra félaga sem sýnir getu þeirra á viðurkenndum mótum. Þetta kallast “rating” og því hærri sem hún er því betri eru spilararnir. Sem dæmi þá er efsti maður á heimslistanum í dag Richard Wysocki með rating 1048 en efsta konan er Catrina Allen með rating 966. Til samanburðar er efsti íslendingurinn Ástvaldur Einar Jónsson með 964 í rating.

Nú á dögunum tóku þeir saman hvaða karl og kona eru bestu spilarar síðustu 10 ára samkvæmt “ratings” og kom þá í ljós að David Feldberg og Valerie Jenkins eru á toppnum á þeim lista.

Ótrúleg fjölgun frisbígolfvalla.

Þrátt fyrir að frisbígolfið sé enn vinsælast í Bandaríkjunum þá er gaman að sjá vöxtinn á sportinu á heimsvísu þ.e. utan Bandaríkjanna. Núna eru um 5.500 vellir á heimsvísu, þarf af 1113 utan Bandaríkjanna.

Árið 1986 voru átta vellir á Norðurlöndunum og árið 1990 voru samtals 32 vellir utan Bandaríkjanna. Þremur árum síðar voru þeir komnir upp í 50. 1995 voru þeir orðnir 110 og þegar fyrstu vellirnir voru settir upp hér á landi voru þeir orðnir yfir 200. Árið 2011 voru um 500 vellir utan Bandaríkjanna og um síðustu áramót voru 1113 vellir utan Bandaríkjanna.

graf

Fjöldi valla utan Bandaríkjanna frá 1986-2015

Íslandsmeistarar 2016

meistararÞrír nýjir Íslandsmeistarar voru krýndir á Íslandsmótinu sem fram fór fyrstu helgina í september. Í opnum flokki sigraði Þorsteinn Óli Valdimarsson, í kvennaflokki sigraði Kolbrún Mist Pálsdóttir og í barnaflokki sigraði Andri Fannar Torfason. Svo skemmtilega vill til að allir þessir aðilar voru að vinna Íslandsmeistaratitil í fyrsta sinn. Við óskum þeim öllum til hamingju.