Tveir af þeim bestu á leiðinni til Íslands

header-deep-in-the-game

Í lok júlí koma til landsins tveir af þekktustu folfurum í heimi, þeir Avery Jenkins og Simon Lizotte, í boði Íslenska frisbígolfsambandsins. Þeir munu halda hér námskeið undir heitinu “Deep in the game” en þeir hafa ferðast víða með þessi vinsælu námskeið. ÍFS hefur lengi reynt að fá þá til Íslands og við erum mjög ánægðir með að það skildi loksins hafa tekist. Nákvæm dagsetning og fyrirkomulag námskeiðanna liggur ekki enn fyrir en líklega verður þetta á tímabilinu 22.-26. júlí nk. Þeir munu ekki keppa hér á landi en við munum líklega fá þá til að taka hring í Gufunesi og sjá þá hvernig atvinnumenn gera þetta.

Avery Jenkins vann heimsmeistaratitilinn 2009 og hefur verið einn öflugasti folfari heims síðan. Hann er fæddur í Bandaríkjunum 1978 og er búinn að vera atvinnumaður í frisbígolfi síðan 2002 og hefur m.a. þrisvar orðið bandarískur meistari í lengdarkeppni en lengsta kastið hans er 212 metrar. Undanfarið hefur hann einbeitt sér að þjálfun og kennslu en hann er einmitt þjálfari Simon Lizotte.

Simon Lizotte er 22 ára gamall þjóðverji sem er þessa stundina einn af bestu frisbígolfspilurum heims. Þrátt fyrir ungan aldur er hann núverandi Evrópumeistari og margfaldur Þýskalandsmeistari. Hann er bæði frábær púttari en einnig er hann með lengstu kösturum í dag og á m.a. hraðametið þegar hann kastaði diski á 144 km hraða. Margir spá honum heimsmeistaratitlinum á næstu árum.

Við setjum inn nánari upplýsingar og skráningu fljótlega.