Nú þegar Covid-19 veiran gengur yfir heimsbyggðina er fólk hvatt til þess að halda sig fjarri öðrum og minnka þannig smithættuna sem er eina leiðin til að losna við þennan vágest. Allri starfsemi og mótahaldi hefur verið hætt í frisbígolfinu á meðan við erum að ná tökum á ástandinu.
Við viljum ítreka við þá einstaklinga sem eru að spila frisbígolf um þessar mundir að fylgja þeim leiðbeiningum sem Almannavarnir hafa sent út og koma þannig í veg fyrir að smitast eða smita aðra.
2 metrar á milli spilara. Veiran smitast með svokölluðu dropasmiti og hósti eða hnerri getur auðveldlega borið hana á aðrar manneskjur. Hún getur einnig smitast í samtali á milli aðila en tveir metrar er talin vera örugg fjarlægð.
Ekki snerta aðra diska. Veiran getur lifað á plasti í töluverðan tíma og því mikilvægt að snerta ekki aðra diska en þína eigin.
Ekki snerta körfuna. Góð hugmund er að sleppa púttinu og t.d. að gefa öll pútt sem eru 3 metrar eða styttra.
Það styttist í að lífið fari aftur í hefðbundinn farveg og þá getum við spilað aftur eins og okkur lystir. Hlýðum Víði og hlustum á Þórólf.