Hreyfum okkur!

Nú eru óvenjulegir tímar. Fólk er hvatt til að hittast ekki að óþörfu og alls ekki í stórum hópum til að minnka líkur á að smit berist á milli manna. Það er hinsvegar mikilvægt að hreyfa sig og frisbígolf er góður kostur ef skynsemin er höfð að leiðarljósi þegar sportið er stundað. Við hvetjum fólk til að spila sem mest en með ábyrgum og eftirfarandi hætti:

  • Haldið a.m.k. tveggja metra fjarlægð á milli spilara.
  • Ekki snerta aðra, heilsast eða faðmast.
  • Notið hanska þegar körfur eru snertar.
  • Ekki taka upp diska annarra spilara.
  • Takið sprittið með.

Þau sem eru viðkvæm fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma þurfa að fara mjög varlega og spila einsömul. Öll sem tök hafa á eru hvött til að hreyfa sig reglulega, fara í göngutúra og þar er frisbígolfið upplögð leið til þess að viðhalda heilsunni.

Sportið í sumar.
Frisbígolf er mjög hentug íþrótt að spila næstu mánuði á meðan veiran gengur yfir þar sem auðvelt er að uppfylla allar varúðaráðstafanir Landlæknis. Þetta er einstaklingsíþrótt þar sem samskipti við aðra geta verið alveg snertilaus og ekki spillir fyrir að frítt er að spila á öllum völlum landsins. Sj´áumst á næsta velli.