Íslandsmótið í frisbígolfi 2020

Um helgina fer fram hápunktur keppnisársins í frisbígolfi en alls eru 98 keppendur skráðir til leiks og hafa aldrei verið fleiri. Ekki bara er þetta stærsta Íslandsmót hér á landi frá upphafi heldur er þetta stærsta frisbígolfmót sem haldið hefur verið. Uppgangur sportsins undanfarin ár hefur verið mikill og má segja að þetta ár slái öll met, bæði í þátttöku á mótum en einnig í fjölda þeirra sem spila á völlunum.
Íslandsmótið fer fram á þremur völlum og leiknar eru 18 brautir á dag, á Vífilsstaðavelli á föstudag, á Grafarholtsvelli á laugardag og endað síðan á Gufunesvelli á sunnudag.
Áhorfendur eru velkomnir og fylgjast með en það stefnir í spennandi keppni í öllum flokkum.