Hefur þú prófað frisbígolf?

Frisbígolf er íþrótt sem er farin að njóta mikilla vinsælda hér á landi en það er í samræmi við það sem er að gerast um allan heim. Íþróttin er einföld og felst í því að koma frisbídisk í mark í sem fæstum köstum. Oftast er markið karfa en getur verið í raun hvað sem er s.s. staur, tré, tunna eða hvað sem auðvelt er að kasta í.
Sérstakir frisbígolfdiskar eru hentugastir en þeir eru yfirleitt minni og þyngri en hefðbundnir frisbídiskar og fljúga því lengra og nákvæmar auk þess að þola vind mun betur. Bestu spilararnir geta kastað folfdisk yfir 150 metra með góðri nákvæmni.
Nú eru 57 frisbígolfvellir á Íslandi og frítt er að spila á þeim öllum. Völlum fer fjölgandi enda ódýrt fyrir sveitarfélög að koma upp velli og viðhald lítið sem ekkert.
Drífðu þig endilega í að prófa þetta skemmtilega sport og taktu vinina með. Ef það er ekki völlur í þinni heimabyggð er ekkert annað að gera en að banka upp hjá bæjarstjóranum og hvetja hann til að setja upp völl.
Ef ykkur vantar aðstoð eða upplýsingar sendið þá póst á folf@folf.is