Frisbígolf – yfir 40 ára saga

ed-headrick-frisbee-putting-mach1-basketMargir eru að kynnast frisbígolfi í fyrsta sinn þessa dagana en gaman er að upplýsa að folfið á sér nokkuð langa sögu. Ekki er auðvelt að tímasetja nákvæmlega hvenær folfið varð til en flestir rekja það annarvegar til 1965 þegar bandaríkjamaður byrjaði að spila með frisbídiskum á golfvelli og hinsvegar þegar fyrsta einkaleyfið á folfkörfu var fengið 1975 sem er grunnurinn af þeim körfum sem eru notaðar í dag. Í fyrstu var þetta kallað “frisbee-golf” en Wham-O fyrirtækið sem átti vöruheitið “frisbee” fór fram á einkaleyfi á því nafni. Því var búið til nýtt nafn “disc-golf” sem er notað víðast hvar í dag.

Frisbígolfið barst hingað til lands í kringum 1998 og voru þá t.d. spilaðir vellir þar sem ruslatunnur voru notaðar sem skotmark en fyrsti “alvöru” völlurinn var settur upp á túni á Hömrum á Akureyri sumarið 2001 og voru notaðir staurar sem kastað var í. Sá völlur var nálægt því svæði þar sem braut 4 er á Hömrum í dag. Í framhaldi af því var settur upp völlur á Úlfljótsvatni með körfum úr síldartunnum og sumarið 2002 kom 9 brauta völlur í Gufunesi með körfum sem smíðaðar voru hér heima.

karfaFrisbígolf hefur náð ótrúlega miklum vinsældum um allan heim síðustu ár og þó að íþróttin hafi byrjað í Bandaríkjunum þá eru nú tugir milljónir spilara í yfir 53 löndum og meira en 5.500 vellir sem hægt er að spila á. Hér á landi eru vellirnir orðnir 30 og fer fjölgandi. Þess má geta að töluverður fjöldi atvinnumanna keppir í frisbígolfi en mót eru haldin um allan heim með nokkuð góðum verðlaunum. Búið er að viðurkenna íþróttina fyrir Ólympíuleikana en ekki er vitað hvenær hún verður formleg keppnisgrein þar, það gæti tekið nokkur ár.

Árið 2005 var stofnað formlega Íslenska frisbígolfsambandið – ÍFS sem hefur það m.a. sem markmið að kynna sportið hér heima, fjölga völlum og spilurum. Á þessu ári eru haldnar yfir 60 keppnir sem eru öllum opnar, Íslandsmót er haldið fyrstu helgi í september.