Frisbígolf og andleg heilsa

Auk þess að vera skemmtilegur leikur og glæsiileg íþrótt hefur frisbígolf fjölmarga kosti fyrir bæði einstaklingana sem það stunda og samfélagið í heild.

Ein mikilvægasta áskorun nútímasamfélags er að fá fólk, einkum yngra fólk, til að hreyfa sig meira og stunda útiveru að einhverju marki. Eins og kunnugt er hreyfir lítill minnihluti sig að því lágmarki sem talið er ráðlegt og nauðsynlegt fyrir heilsu og þroska.

Folf býður fólki á öllum aldri upp á tækifæri til fjölbreyttrar hreyfingar í leik. Hvort sem iðkendur stunda folf til skemmtunar, afþreyingar, keppni eða meðvitað til útiveru og heilsubótar fylgir hreyfingin með í öllum tilvikum. Fólk spilar braut eftir braut, kast eftir kast, oft án þess að átta sig beinlínis á því að það hafi gengið rösklega nokkra kílómetra og gert bolvindur og sjálfkrafa teygjuæfingar mörgum sinnum við að kasta og beyga sig eftir diskum.

Vinsældir frisbígolfs aukast jafnt og þétt. Sumarið 2021 fóru ríflega 50% Reykvíkinga á aldrinum 18-34 ára í folf samkvæmt könnun Gallup. Þeim fjölgar stöðugt sem stunda folf oft í viku eða oft í mánuði. Folf er iðkað allan ársins hring og tugþúsundir hafa tekið því opnum örmum.

Útivera, hreyfing og félagsskapur eru meðal fjölmargra kosta frisbígolfs sem hafa jákvæð áhrif á andlega líðan fólks. Fyrir sum er það útivistin sem heillar, tækifærið til að komast út í ferska loftið og kúpla sig frá daglegu áreiti og stressi. Fyrir öðrum er frisbígolf leið til að setja sér markmið og fá útrás við að ná þeim. Sum sjá frisbígolf sem aðferð til að koma skipulagi á óreiðu hugans og ná einbeitingu. Fyrir mörg er þetta leið til að njóta félagsskapar og tilheyra hópi með sameiginlegt áhugamál.

Allt hefur þetta jákvæð áhrif á andlega heilsu og líðan fólks. Í óformlegri könnun á vefsíðu Bandaríska frisbígolfsambandsins nefndi fólk ýmis dæmi um þau góðu áhrif sem folf hefði á andlega heilsu.

Hér eru fáein svör af fjölmörgum sem bárust:

„Hjá mér var frisbígolf leið til afþreyingar og til að hafa tíma út af fyrir mig. Nú hefur það þróast yfir í frábært tengslanet og vini um allan heim!“ –  Steve G.

„Það hjálpar mér að fá útrás. Til að gleyma mér. Ég barðist við andlega erfiðleika í æsku og gerði ekkert í þeim: Frisbígolf hefur gefið mér tækifæri til að breyta slíkum hugsunum og orku í eitthvað jákvæðara. Það hefur aukið sjálfstraustið hjá mér, sem var í algeru lágmarki áður, og kennt mér svo mikið um sjálfa mig og hver ég er og hvað ég vil og það veitir mér mikla ánægju.“ – Tera B.

„Sonur minn er 12 ára. Hann uppgötvaði frisbígolf í fyrrasumar og er alveg forfallinn. Þetta er búið að vera erfitt ár hjá okkur en folfvöllurinn er hamingjustaðurinn hans. Við förum með honum 3x í viku hvernig sem viðrar.“ – Christina J.

„Ég er með geðhvörf 1 með kvíða og miklu þunglyndi … frisbígolf er það eina sem fær mig út úr húsi … auðveldar mér að eiga samskipti og hitta nýtt og spennandi fólk. Frisbígolf er, ásamt hundinum mínum, lykilástæðan fyrir því að ég skuli enn vera hér.“ – Robbie S.