Frábæru ári að ljúka

img_7365Árið 2016 hefur verið frábært fyrir frisbígolfið og ánægjulegt að sjá hversu mörg ný andlit sáust á völlunum um allt land. Þrír nýjir vellir voru opnaðir og vinsælustu vellirnir voru troðfullir flesta góðviðrisdaga í sumar. Þannig var oftast biðröð á fyrsta teig á Klambratúni sem er okkar vinsælasti völlur. Aldrei hafa fleiri mót og keppnir verið haldin en á þessu ári en þau yrði yfir 60 sem er mikil fjölgun frá því í fyrra. Um síðustu helgi lauk haustmótaröðinni 999 þar sem spilað var á þeim 9 völlum sem nú eru komnir á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Við lítum bjartsýnum augum á næsta ár en nú þegar er staðfest að margir nýjir vellir verða settir upp og sá fyrsti af þeim mun koma í vetur í Kópavogsdalnum. Nokkur mót verða einnig í vetur en það fyrsta er hið árlega Áramót sem ávallt er haldið í Gufunesi, fyrsta sunnudag ársins kl. 13. Svo skemmtilega vill til að sá dagur er núna 1. janúar. Fyrstu helgina í júlí verður haldið hér alþjóðlegt mót á Gufunesvelli þar sem okkar bestu menn munu spreyta sig á móti erlendum keppendum.

Sífellt fleiri eru farnir að selja diska og búnað fyrir sportið en sá nýjasti er Intersport sem þegar er farinn að auglýsa í dagblöðum. Það hefur því aldrei verið auðveldara að kaupa folfdiska og mjög skemmtilegir tímar framundan.