Hvað þýða númerin?

Flestir líta á frisbídiska sem frekar einfalda hönnun þar sem flestir diskar líta svipað út en það er alls ekki raunin. Um er að ræða flókna hönnun og mikið úrval mismunandi diska með ólíka flugeiginleika. Til þess að skýra þetta betur tökum við sem dæmi fjögurra númera kerfið en það er algengasta kerfið til að greina eiginleika diska. Nokkrir framleiðendur nota það s.s. Innova, Lattitute 64, Dynamic Discs, Westside og Legacy. En hvað þýða þessar fjórar tölur sem stiplaðar eru á suma diska. Þær tákna hraða, svif, beygju og lokasveig.

Hraði (speed)

Hann er mældur frá 1-14 og er í raun mikilvægasta talan því hinar þrjár tölurnar taka mið af henni. Þessi tala er líka mest misskilda breytan því margir spilarar, sérstaklega byrjendur, halda að þetta sé sá hraði sem diskurinn flýgur á. Það er auðvitað eðlilegur misskilningur. Það rétta er að hraðatalan segir til um hraðann sem þarf að koma disknum á til þess að hann hagi sér eins og hann er hannaður til. Því hærri sem talan er því hraðar þarftu að kasta disknum.

Hraðatalan segir einnig til um það hvort diskur er pútter, midrange (miðari) eða dræver. Pútterar hafa hraðann 1-3, midrange eru með hraðann 4 eða 5 á meðan dræverum er yfirleitt skipt upp í tvo flokka, brautar-dræverar og lengdar-dræverar (fairway og distance). Brautar-dræverar eru yfirleitt með hraðann 6-8 en lengdar-dræverar eru 9-14. Hraðatalan skiptir miklu máli því ef kastarinn nær ekki að kasta disknum á þeim hraða sem hann er gerður fyrir þá virka ekki hinir eiginleikar disksins á þann hátt sem gefið er upp. Ef disknum er kastað á of litlum hraða verður hann oftast yfirstöðugur og leitar þá of mikið til vinstri.

Svif (glide)

Svifið er líklega það sem er auðveldast að skilja í flugi diska en það þýðir einfaldlega svifið sem diskurinn hefur á flugi. Svifið er mælt á skalanum 1-7 en flestir diskar eru á bilinu 4-6. Því hærri sem talan er því meira svif hefur hann.

Beygja (turn)

Þriðja talan segir til um það hversu mikið diskurinn beygir á flugi rétt eftir að hann leggur af stað, veltir sér til vinstri eða hægri. Stundum er líka talað um stöðuleika disksins á miklum hraða. (High speed Stability-HSS). Oft er talað um þrjá meginflokka í þessu samhengi; yfirstöðugan (overstable), stöðugan (stable) og undirstöðugan (understable). Skalinn er frá +1 til -5 en flestir diskar eru á bilinu 0 til -3.

Til að skýra tölurnar þá miðum við t.d. við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast en fyrir hann er +1 yfirstöðugur diskur og veltir sér því strax til vinstri, 0 er stöðugur diskur og fer því beint en mínustölur flokka diskinn sem undirstöðugann og þá leitar diskurinn strax til hægri eftir að honum er sleppt.

Undirstöðugir diskar eru frábærir fyrir byrjendur sem ná ekki þeim hraða og eiginleikum úr disknum sem vanari spilarar geta og fara því diskarnir oft frekar beint í flugi sínu sem er mikill kostur.

Lokasveigur (fade)

Síðasta talan táknar stöðugleika disksins á litlum hraða eða LSS-Low Speed Stability. Hún segir til um það hversu mikið diskurinn sveigir til vinstri þegar hægist á fluginu. Skalinn er á bilinu 0-6 en talan 0 þýðir að diskurinn lendir í nokkur beinni línu á meðan diskur með töluna 6 tekur krappa beygju til vinstri rétt fyrir lendingu (miðað við rétthentann spilara sem kastar bakhandarkast).