Frisbígolf á tímum veirufaraldurs

Þegar yfirvöld á Íslandi settu á samkomubann þann 16. mars sl. var ljóst að bann yrði sett á allt skipulagt íþróttastarf í landinu og að sjálfsögðu tókum við frisbígolfarar strax þátt í þessu með því að fella niður öll mót og samkomur sem fyrirhuguð voru.

Nú liggur fyrir að frá og með 4. maí nk. verður slakað á þessum reglum og munum við þá hefja mótahald að nýju um allt land en með breyttu fyrirkomulagi sem aðallega snýr að því að minnka smithættu vegna kórónavírusins. Þessar reglur falla vel að frisbígolfi og ekki er þörf á að breyta neinum reglum í íþróttinni sjálfri heldur snýr þetta meira að umgengni um sameiginlegan búnað og hvert annað.

Þær reglur yfirvalda sem taka í gildi þann 4. maí að öllu óbreyttu eru:

  • Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman.
  • Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga.
  • Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.

Vinahópar sem spila sér til gamans þurfa að vera meðvitaðir um þær smithættur sem eru til staðar og gera það sem hægt er að gera til að minnka smithættu á milli fólks. Við höfum gefið út leiðbeiningar til að árétta þetta og þar er t.d. góð hugmynd að minnka sameiginlega snertingu við körfuna með því að gefa stutt pútt og reikna þau sem eitt kast. Við mælum með 3 metrum en hópurinn kemur sér saman um þessa vegalend.

Mótahald.

Mót í frisbígolfi hefjast eftir 4. maí og verður mótaskráin kynnt á næstu dögum. Verið er að vinna í leiðbeiningum um framkvæmd mótanna en einnig erum við að vinna í samstarfi við PDGA um nánari útfærslur og fá leyfi til að hluti móta verði PDGA viðurkennd. Meðfylgjandi er listi yfir helstu áherslur í mótahaldi sumarsins en þetta getur þó breyst eftir aðstæðum og þeirri reynslu sem við fáum.

  • Tveggja metra reglan í fullu gildi við allar aðstæður
  • Boðið verður upp á spritthreinsun fyrir og eftir keppni
  • Keppendur snerta ekki eða handleika búnað annarra
  • Hámark fjórir keppendur í hverju holli
  • Skor verður einungis fært rafrænt
  • Úðabrúsar með spritti verða við körfur til hreinsunar
  • Verðlaunaafhending verður óhefðbundin og snertilaus

Við horfum bjartsýnum augum til næstu vikna og mánaða og trúum því að þetta verði enn eitt frábært sumar til fribígolfiðkunar.

ÍFS – Íslenska frisbígolfsambandið.