12 nýir vellir bætast við í sumar

Á þessu sumri bætast 12 nýir frisbígolfvellir við þá sem fyrir eru en sífellt fleiri sveitarfélög eru að uppgvöta hversu frábært frisbígolf er fyrir íbúa sína enda eitt skemmtilegasta og ódýrasta lýðheilsuverkefni sem hægt er að finna.
Þessir nýju vellir eru: Guðmundarlundur í Kópavogi (byrjun júlí), Grímsey (byrjun júlí), Árnes (tilbúinn), Fáskrúðsfjörður (tilbúinn), Sauðárkrókur (byrjun júlí), Eiðar (BSRB), Vogar (byrjun júlí), Grindavík (4 körfur), Svalbarðseyri (miðjan júlí), Þorlákshöfn (byrjun júlí), Eyrarbakki (byrjun júlí) og Garðabær (júlí). Í sumar verða því 57 frisbígolfvellir komnir upp hér á landi en auðvitað er frítt að spila á þeim öllum. Við hvetjum folfara til að taka frisbídiskana með sér í sumarfríið og prófa sem flesta velli.

Til viðbótar við þetta er verið að stækka völlinn á Hömrum Akureyri í 18 brautir en hann verður tilbúinn um miðjan júlí. Fram að þessu hefur völlurinn í Gufunesi verið eini 18 brauta völlur landsins og er mikil tilhlökkun folfara að fá annan stóran völl. Opnunarmótið á þeim velli verður helgina 20.-22. júlí en sérstakur afsláttur er fyrir folfara á tjaldsvæðinu á Hömrum þá helgi. Einnig standa yfir framkvæmdir við völlinn í Grafarholti en þar er verið að setja flotta gervigrasteiga á allar brautir auk þess að brautum 7 og 8 er breytt töluvert. Grafarholtsvöllurinn verður eftir þessar breytingar sá flottasti í landinu en minna má á að þar er opið hús alla sunnudaga frá kl. 13-15 þar sem hægt er að fá lánaða diska auk kennslu í sportinu.