Fljótt refsað fyrir mistök

Blær Örn Ásgeirsson er reynslunni ríkari eftir þátttöku á bandarísku mótaröðinni

Blær Örn hefur nú lokið fyrsta tímabilinu sínu á mótaröð atvinnumanna í Bandaríkjunum. Alls tók hann þátt í tíu mótum frá miðjum febrúar og til mánaðamóta apríl og maí. Hann ferðaðist milli móta á húsbíl ásamt norðmönnunum Knut Valen Håland og Peter Lunde og var bíllinn heimili þeirra allan tímann. En hvernig kom það til að þeir þrír urðu ferðafélagar?
Ég kynntist Knut á mótinu í Noregi í fyrra en var búinn að þekkja Peter lengur. Þeir voru búnir að ákveða að fara til Bandaríkjanna og spurðu hvort ég vildi ekki koma með þeim. Svo ræddum við þetta öðru hvoru í vetur og á endanum ákváðum við bara að skella okkur. Knut fór til Bandaríkjanna árið 2019 og spilaði nokkur mót áður en öllu var frestað vegna COVID og hann þurfti að fara heim. En fyrir utan það þá erum við þannig séð nýliðar, allir þrír. Svo má ekki gleyma Truls Vik, hann er fararstjórinn okkar og sér um húsbílinn, ferðaplönin og að keyra á milli staða.

En er ekkert þreytandi að búa svona langan tíma í húsbíl? Er þetta ekki eins og í útilegu, alltaf vesen með uppvask og svoleiðis?
Það er fínt að vera í húsbílnum, það væri auðvitað meira næs að vera í íbúð, en það er ekkert að þessu. Svo lengi sem ég er með stað til að sofa á þá er mér alveg sama. Við erum ekki mikið búnir að vera að elda kvöldmat, sko, þannig að við borðum yfirleitt á einhverjum stöðum. En morgunmat og hádegismat borðum við í bílnum. Þetta er það sem ég er búinn að vera að stefna að í nokkur ár en COVID auðvitað stoppaði allt. Nú fékk ég hins vegar fullkomna ferðafélaga og þá er þetta ekkert mál. Þetta hefði verið vesen ef ég væri einn. Annars gengur þetta þannig fyrir sig að eftir hvert mót þá leggjum við strax af stað á næsta og keyrum annað hvort alla leið eða stoppum á leiðinni ef það er mjög langt á milli. Svo tökum við einn til tvo æfingahringi á vellinum á dag fram að móti.

Hvernig gekk þér að ná markmiðum þínum? Náðirðu þeim árangri sem þú ætlaðir þér?
Ég setti mér fyrst og fremst þau markmið að spila yfir „ratingu“, sem myndi þá þýða að ég væri að taka inn einhver peningaverðlaun á mótunum. Fyrstu mótin voru auðvitað erfið en svo komst ég aðeins í gírinn og fór að ganga betur. Ég er alveg sæmilega ánægður með árangurinn svona miðað við að þetta er í fyrsta skipti sem ég er á túrnum og alveg hellingur að læra og finna út úr. Og alls konar að gerast sem ég átti ekki von á. Til dæmis púttin, venjulega eru þau góð hjá mér en allt í einu var bara ekkert ofaní og drævin í bara einhverju rugli um leið. Svo löguðust púttin og ég hætti að gera alveg svona ótrúlega heimskuleg mistök í drævunum að mestu leyti. Ef ég hefði getað sleppt þessum endalausu skollum væri ég að spila bara nokkuð vel í heildina. En minn styrkleiki núna liggur í púttunum og meðan þau eru góð þá er ég í ágætum málum. Svo þarf ég bara að vinna í drævunum í haust áður en ég fer út aftur, vonandi, á næsta ári. Ég þarf að breyta forminu mínu í drævunum til að fá meiri stöðugleika í köstin og það kemur til með að taka tíma og miklar æfingar. Ég er búinn að kasta eins í fimm ár og það verður bilað erfitt að breyta því og maður gerir það ekki á miðju tímabili. En ég held að það verði að gerast því jafn flókið form og ég er með er ekki að hjálpa framförum eða nákvæmni í leiknum. Og stöðugleiki í drævunum er besta leiðin fyrir mig til að fækka óþarfa bógíum.

Nú var stundum talsverður vindur á mótunum. Var reynslan úr Gufunni ekkert að hjálpa þér?
Nei, ég græði ekkert á vindinum, það eru allir svipað góðir í roki. Þannig að Gufan er ekkert að hjálpa mér svona miðað við aðra. Og svo er oft eins og vindurinn hér sé öðruvísi en heima, hann hefur ekki jafn mikil áhrif á diskana.

En hvernig eru aðstæður á mótaröðinni helst öðruvísi en hér heima?
Vellirnir eru yfirleitt lengri og erfiðari en það sem maður er vanur. Stundum er spilað á golfvelli og þá eru allar brautir tíu sinnum lengri en allt sem er heima. Á Memorial voru þröngar brautir, OB og vatn út um allt og það var kannski líkast því sem er í Gufunni, þannig séð, nema lengra. Og á Waco var skógarvöllur og þar var allt miklu þrengra en nokkuð sem maður hefur prófað á Íslandi og miklu lengra líka. Hérna kasta ég miklu meira „distance“ dræverum en heima. Svo komst ég að því að ég var með allt of lítið af diskum með mér. Ótrúlegt hvað þeir týnast mikið, alls staðar vatn og skógarþykkni sem bara gleypir þá.En til að byrja með þá kom mér á óvart hvað það var kalt. Ég var eiginlega ekkert með fötin í þetta og þegar ég var að pakka fyrir ferðina þá datt mér ekki í hug að vera að taka með mér ullarföt til Texas og Nevada. En ég hefði klárlega þurft það á fyrstu mótunum. En fyrir utan það þá er augljóslega miklu betra að spila í heitu loftslagi en í kuldanum heima. Fyrst eftir að ég kom út þá fann ég bara hvað líkaminn var allur stífur eftir spilamennskuna á Íslandi um veturinn og svo liðkaðist það til um leið og hlýnaði. Íslenska sumarið er alveg frábært en það er ekki hægt að líkja saman að spila á Íslandi og Bandaríkjunum í október eða mars.

Hver eru mestu viðbrigðin miðað við að spila á Íslandi?
Manni er svo fljótt refsað fyrir mistök. Ein vitlaus ákvörðun eða eitt misheppnað kast getur þýtt að maður fer á tvöföldum skolla í staðinn fyrir fuglinn sem maður hélt að væri að fara að gerast auðveldlega. Og í svona sterkum mótum getur svoleiðis munur þýtt að maður dettur niður um tuttugu sæti. Og tapar fullt af peningum. Það er líklega stærsti munurinn á að spila á bandaríska túrnum og sterkustu mótunum heima. Hér má ekki gera nein mistök og maður verður að spila vel alla hringina til að eiga séns á einhverjum árangri. Hvert kast skiptir miklu máli.

Nú ertu búinn að vera á sömu mótum og allir þessir frægu spilarar og jafnvel verið með þeim í holli. Ertu búinn að kynnast einhverjum?
Ég er náttúrulega búinn að hitta svolítið af þeim í gegn um tíðina, allavega þeim sem hafa komið til Íslands – og það eru bara ágætlega margir, myndi ég segja. En hérna kynnist maður auðvitað fullt af nýjum spilurum. Og frekar gaman að vera að spila kannski í holli á ágætlega stóru móti með náungum sem maður var að horfa á á YouTube og reyna að læra af þeim sem krakki. Paul Ulibarri er til dæmis einn mesti meistari sem ég hef hitt. Og svo lítur maður alltaf upp til Palla (Paul McBeth), auðvitað, hann virkar mjög almennilegur. Ég er líka búinn að spila með Big Jerm, Chris Dickerson, Calvin Heimburg, Brody Smith, Kyle Klein og Nathan Queen svo einhverjir séu nefndir. Og Scott Stokely, ég var með honum í holli á fyrsta hringnum á Belton. Alger draumahringur hjá mér og hann hélt að ég væri að fara að vinna mótið. Svo kynnist maður líka gaurum sem eru kannski ekkert risastór nöfn en eru samt að ferðast allan túrinn og eru kannski á svipuðu getustigi og ég. Og svo vorum við aðallega að hanga með svíunum til að byrja með. Þetta eru allt toppgæjar. Annars eru allir svo ánægðir að Evrópubúar séu komnir aftur á mótaröðina. Og það finnst engum skrýtið að það sé frisbígolf á Íslandi og sé svona vinsælt. Helst að menn séu hissa að það sé yfir 1000 „rated“ spilari frá Íslandi. Sérstaklega þar sem næsti er kannski með 950 stig. En ég byrjaði náttúrulega sæmilega ungur að spila og spilaði þá strax mjög mikið. Og það eru alltaf að koma yngri og yngri spilarar á Íslandi sem taka þessu alvarlega og eru til í að leggja á sig að æfa sig. Þannig að það verða pottþétt nokkrir spilarar yfir 1000 á Íslandi eftir bara nokkur ár.

Eftir þessa reynslu af mótaröð atvinnumanna, hvað finnst þér þurfa helst að breytast á Íslandi til að efla sportið, svona keppnislega séð?
Sko, það eru kannski ekkert allir sammála mér en ég held að fleiri mót með peningaverðlaunum séu málið. Þá skiptir máli fyrir keppendur að halda áfram að vanda sig þótt þeir séu kannski ekki alveg í toppbaráttunni. Og svo þarf auðvitað betri velli og fjölbreyttari brautir þar sem spilarar þurfa að ná valdi á fleiri köstum en bara hyzer, þurfa að geta mótað köstin meira. Í staðinn fyrir að þurfa bara að geta dúndrað hyzer og klára svo með góðu pútti. Því opnari sem völlurinn er því meira snýst þetta um púttin. Á opnum velli skiptir ekki svo miklu máli hvort þú ferð tveimur metrum of langt til hægri, þá ertu bara með 10 metra pútt í staðinn fyrir 5 metra pútt. En á skógarvelli getur sami munur þýtt að þú ert með 20 metra dræv ef þú hittir ekki línuna í staðinn fyrir 100 metra dræv. Þótt við séum með marga velli á Íslandi þá eru alveg sorglega fáir alvöru keppnisvellir. Við náum ekki framförum nema það breytist og vonandi fjölgar alvöru völlum fljótt.

Blær er væntanlegur til landsins í byrjun maí og tekur þá þátt í Opna Reykjavíkurmótinu og Akureyri Open áður en hann heldur til Evrópu að keppa, mest á Norðurlöndunum. Ætli reynslan frá Bandaríkjunum nýtist í þeim slag?
Það eru klárlega meiri sigurlíkur fyrir mig á Evróputúrnum og stóru mótunum í Evrópu svona miðað við stöðuna núna. En ég stefni auðvitað á að keppa í Bandaríkjunum á næsta ári ef ég fæ tækifæri til, þar eru sterkustu spilararnir og stærstu mótin og mesta verðlaunaféð. Til þess að geta það þá þarf maður styrktaraðila sem dekka uppihaldið og ferðirnar að mestu leyti. Ef mér heldur áfram að ganga sæmilega vel og ef ég næ að þróa bæði formið og leikinn minn með stífum æfingum þá er aldrei að vita nema maður nái athygli styrktaraðila.

Besta árangrinum á mótaröðinni náði Blær með 18 sæti á Open at Tallahassee, 21 sæti á Memorial Championship og 22 sæti á Music City Open í Nashville. Og hann vakti verðskuldaða athygli þegar hann var í lokahollinu á 2. hring á Opna mótinu í Belton. Það er alveg ljóst að hann hefur hæfileikana til að ná langt í íþróttinni og verður spennandi að sjá hvernig reynslan í vetur skilar sér í keppni hér heima og í Evrópu.