Frisbígolf allt árið – á heilsársteigum

Eins og flestir vita þá er hægt að kasta frisbídiskum alla mánuði ársins enda eru allir frisbígolfvellir hér á landi aðgengilegir alla daga. Ólíkar árstíðir gera þessa velli hinsvegar mjög krefjandi þegar snjór, klaki, bleyta eða drulla gera aðstæður erfiðari en þá koma heilsársteigar sterkir inn.

Stærri sveitarfélögin hafa verið að uppfæra sína velli með góðum heilsársteigum enda hefur það sýnt sig að þannig vellir verða vinsælli og miklu meira notaðir. Við hvetjum eigendur vallana (sveitarfélögin) að byggja heilsársteiga á sína velli enda lykilatriði fyrir heilsársnotkun.

Þetta er einföld og ódýr leið til að fá fólk til að fara út að leika sér, hitta annað fólk og hreyfa sig á skemmtilegan, ódýran og hollan hátt.

Frábært sumar að baki

Óhætt er að segja að sumarið sem nú fer senn að kveðja hafi verið frábært fyrir frisbígolfið á Íslandi enda veðrið leikið við okkur um allt land. Greinilegt var að vellir um allt land voru mikið notaðir og ánægjulegt að sjá mikið af nýjum spilurum sem eru að uppgvöta þessa frábæru íþrótt.

Nýjir vellir litu víða dagsins ljós og gaman að fyrsti 18 brauta völlurinn opnaði í Selskógi við Egilsstaði en sá völlur er kærkomin viðbót við þá velli sem eru fyrir austan. Mikið var haldið af mótum og glæsilegt Íslandsmót toppaði árið eins og áður.

Nú fer veturinn í hönd og þá er bara að pakka niður hvítu diskunum, klæða sig vel og skella sér hring með skemmtilegustu vinunum.

Evrópumót stórmeistara

Nú stendur yfir Evrópumótið í frisbígolfi fyrir stórmeistaraflokka sem eru keppendur 40 ára og eldri. Mótið er haldið í Þýskalandi þetta árið, nánar tiltekið á Salzgitter eyju sem er staðsett í miðju landi. Þrír íslenskir keppendur taka þátt að þessu sinni en það eru þau Kristján Dúi, Katarena og Stefán Sigurjóns sem eru fulltrúir Íslands og óskum við þeim auðvitað góðs gengis.
Hægt er að fylgjast með úrslitum á þessari slóð: https://www.pdga.com/live/event/90541/leaders?round=2

Sá elsti fær upplyftingu

Á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni er elsti folfvöllur landsins en hann var settur þar upp sumarið 2002 og strax sama ár var haldið fyrsta frisbígolfmótið sem kallast Úlli ljóti en það hefur verið haldið á hverju ári síðan og yfirleitt bæði að vori og hausti. Völlurinn var fyrst með 9 brautir sem fljótlega fjölgaði í 10 en fyrir tveimur árum var völlurinn svo stækkaður í 18 brautir.

Á þessu ári var klárað að smíða heilsársteiga á allar þær brautir þar sem hægt er að koma því við og nýlega var hafist handa við að endurnýja gömlu körfurnar með nýrri körfum en upprunalegu körfurnar hafa sinnt hlutverki sínu vel hingað til. Sú vinna er rúmlega hálfnuð og er reiknað með að búið verði að skipta þessum gömlu út á næsta ári.

Við hvetjum auðvitað alla til þess að renna austur á Úlfljótsvatn (45 mínútur) og spila þennan skemmtilega og fjölbreytta völl og í leiðinni er hægt að taka hring á Ljósafossvelli sem er aðeins í nokkurra mínútna aksturfjarlægð frá Úlfljótsvatni.

Íslandsmeistarar 2025

Nú um helgina fór fram Íslandsmótið í frisbígolfi og lék veðrið við keppendur alla helgina. Keppt var í 6 flokkum en spilaðar voru þrjár umferðir, ein á Gufunesvelli og tvær á Grafarholtsvelli.
Mikil spenna var í flestum flokkum en þó ekki í Opnum meistaraflokki og Meistaraflokki kvenna þar sem Ellert Georgsson vann með miklum yfirburðum en hann spilaði hringinga þrjá á -21 kasti og var 13 köstum á undan næsta manni. Þetta var þriðji Íslandsmeistaratitill Ellerts.
Sama gerði María Eldey Kristínardóttir en hún spilaði hringina þrjá á -21 og var 26 köstum á undan næstu konu. Þetta var fimmti Íslandsmeistaratitill Maríu.

Aðrir Íslandsmeistarar 2025 eru:
Stórmeistaraflokkur 40 ára og eldri: Pétur Gunnarsson
Stórmeistaraflokkur kvenna 40 ára og eldri: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Stórmeistaraflokkur 50 ára og eldri: Elmar Viðarsson
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri: Birgir Smith

Við óskum þeim öllum til hamingju með titilana.

Öll úrslitin í Íslandsmótinu má sjá hér: https://www.pdga.com/tour/event/93462

Glæsilegt heimsmeistaramót

Þessa dagana fer fram heimsmeistaramótið í frisbígolfi en í fyrsta sinn er það haldið utan Bandaríkjanna og eru það Finnar sem eru gestgjafar 2025. Mótið þykir eitt það flottasta sem haldið hefur verið enda eru Finnar þekkt frisbígolfþjóð og faglegir fram í fingurgóma.
Mótið er haldið á tveimur völlum, annarsvegar “The Beast” en sá völlur er í borginni Nokia og er 2794 metrar og er par 63 og hinsvegar “The Monster” sem er í Tampere og er 3280 metrar og par 67.

Mikil spenna er fyrir lokadaginn og ótrúleg tilþrif þar sem vallarmetin hafa verið slegin. Við Íslendingar eigum tvo fulltrúa á mótinu, Íslandsmeistarana Maríu Eldey og Ellert
Kristján. Við hvetjum alla til þess að fylgjast með lokadeginum á síðu PDGA eða horfa á beina útsendingu á Disc Golf Network.


Folfnámskeið fyrir konur

Þann 6. ágúst heldur Juliana Korver frisbígolfnámskeið fyrir konur í klúbbhúsinu Geisla (Þorláksgeisla 51). Juliana Korver er margfaldur heimsmeistari í frisbígolfi og er gríðarlega vinsæll kennari og leiðbeinandi í íþróttinni og einstakt tækifæri að fá hana hingað til lands.
Námskeiðið verður haldið miðvikudaginn 6. ágúst 2025 og hefst kl. 19:00. Verð 3500 kr.
Skráning og greiðsla fer fram á staðnum milli kl. 18:30-19:00.

Við hvetjum allar konur til að mæta.

Skemmtilegt Íslandsmót barna.

Það var líf og fjör í Grafarholtinu sl. laugardag þegar Íslandsmót barna var haldið þar en þetta er fjórða árið í röð sem við höldum þetta mót. Boðið var upp á 10 keppnisflokka og keppt bæði á litla vellinum (Græningjanum) og stóra vellinum fyrir 12 ára og eldri.
Veðrið lék við okkur og margir sem fóru brosandi heim eftir skemmtilegan dag.

Við vonumst til að sjá sem flesta á næsta ári en mótið er ávallt haldið fyrsta laugardag í júlí.

Íslandsmót barna

Á hverju ári er haldið sérstakt Íslandsmót barna en það er ætlað yngri keppendum í okkar frábæru íþrótt. Öll börn eru velkomin óháð getu eða reynslu í frisbígolfi.

Boðið er upp á 10 keppnisflokka en þeir eru: 15, 12, 10, 8, 6 ára og yngri í bæði stelpu og strákaflokkum. Skráning fer fram á staðnum og fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda fyrirspurn á folf@folf.is

Íslandsmótið 2025

Íslandsmótið í frisbígolfi verður haldið dagana 8.-10. ágúst í sumar en keppt verður á Gufunes- og Grafarholtsvelli. Íslandsmótið er eins og áður mót þeirra bestu en keppt verður í 8 flokkum og verða því átta Íslandsmeistarar krýndir eftir mótið. Mótið er PDGA vottað B tier mót. Kvennaflokkar spila blandaða hvíta- og bláa teiga en aðrir flokkar spila bláa teiga.

Upphitun fyrir mótið verður 7. ágúst en þá verður haldið Íslandsmótið í Betri disk (Texas Scramble) og eru allir velkomnir að taka þátt í því.

Nánari upplýsingar eru hér: https://www.folf.is/keppnir/islandsmot/