Gott ár fyrir frisbígolf

10900002_687865964667294_6024285084402383304_o

Um leið og við óskum öllum gleðilegrar hátíðar þá er ekki úr vegi að líta björtum augum á komandi ár sérstaklega með tilliti til ársins 2014 sem var það stærsta í þessari ungu íþrótt sem frisbígolfið er.

Árið 2014 fjölgaði folfvöllum úr 7 í 18 auk þess völlurinn í Gufunesi var stórlega bættur með nýjum körfum og fjölgun teiga. Á höfuðborgarsvæðinu bættust við 5 vellir og segja má að þeir hafi allir slegið í gegn með Laugardalinn og Fossvoginn efsta á lista.

Með þessari fjölgun valla varð um leið mikil aukning á fólki sem uppgvötaði folfið og heillaðist af þessari frábæru íþrótt. Í sumar og haust voru vinsælustu vellirnir troðfullur á góðviðrisdögum og mikið af nýjum andlitum sem sjást örugglega aftur næsta sumar.

Fyrir liggur að vellirnir á Húsavík og Bolungarvík verða settir upp í vor auk þess sem nýr völlur í Glerárhverfi á Akureyri verður settur upp um leið og snjóa leysir. Mörg sveitarfélög til viðbótar eru áhugasöm og ljóst að enn fleiri vellir koma upp 2015 sem er auðvitað fagnaðarefni fyrir okkur.

Það er orðin hefð að byrja árið með “áramóti” sem haldið er fyrsta sunnudag ársins kl. 13 á vellinum í Gufunesi. Þetta árið er mótið 4. janúar og öllum opið, ekkert keppnisgjald.

Mínus 2 á ári

sunset2

Nú þar sem sumrinu er lokið og dagur styttist tekur skammdegisfrisbígolfið við. Við notum sjálflýsandi diska og ljósabúnað til að berjast við rökkrið, en við hljótum öll að geta sammælst um að ákjósanlegast væri þó að birtunnar nyti lengur við.

Nú liggur fyrir Alþingi þverpólitísk þingsályktunartillaga um að færa klukkuna á Íslandi aftur um eina klukkustund allt árið. Fyrir þessu liggja auðvitað ýmsar góðar og gildar ástæður, en þær miða flestar að því að “flýta sólarupprás” ef svo má að orði komast, og fjölga þar með þeim dögum þar sem við Íslendingar getum skundað til vinnu í björtu, enda þykir það hafa merkjanleg áhrif á árstíðabundið lundarfar.

Óhjákvæmilegu afleiðingar þessa, sem þó sjaldnar dúkka upp í umræðunni, eru þó þær að ef við færum klukkuna til að þessu marki þá styttum við daginn að sjálfsögðu í seinni endann, og flýtum sólsetri þar af leiðandi um þennan sama klukkutíma.

Fyrir okkur, sem og aðra sem kjósa að stunda útiveru í lok vinnudags, þýðir þetta að síðdegisbirtan hverfur á veturna, og frisbígolftímabilið þar sem hinn almenni dagvinnumaður getur leikið á virkum dögum styttist um ca. 2 mánuði að ári, einn að hausti, og annan að vori.

Hér má vera að samfélagslegur ávinningur sé það mikill að þessi rök vegi léttvægt, en miðað við hversu óhagstætt tíðarfarið hefur verið okkur síðustu tvö sumur, væri afar dapurt ef við útivistarfólk töpuðum sömuleiðis þessum tíma.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar:

http://www.althingi.is/altext/144/s/0421.html

http://mennta.hi.is/vefir/staerdfraedi/lif_og_starf/solargangur.htm

 

Haustmótaröð ÍFS – 777

777

7 laugardagar – 7 mót – 7 vellir.

Ákveðið hefur verið að gera tilraun og halda létt haustmót næstu 7 laugardaga á völlunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og hefjast þau alltaf kl. 13 en spilaðar verða 18 brautir. 
Keppt verður í einum opnum flokki og veitt eru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Keppnisgjald er 2.000 kr (1.000 fyrir félaga ÍFS).

1. nóvember – Breiðholtsvöllur (Birgir keppnisstjóri)
8. nóvember – Mosfellsvöllur
15. nóvermber – Viðistaðatún (Brjánn keppnisstjóri
22. nóvember – Gufunes (hvítir)
29. nóvember – Laugardalur
6. desember – Fossvogsvöllur
13. desember – Klambratún

Okkur vantar keppnisstjóra fyrir mótin (tekur á móti keppendum og mótsgjaldi, skiptir í holl og afhendir verðlaun). Áhugasamir sendið mail á folf@folf.is