Af hverju frisbígolfvöll í þitt sveitarfélag?

Featured

_MG_4188Með aukinni vitund um mikilvægi lýðheilsu hefur orðið vakning á fjölbreyttri og ódýrri afþreyingu og hollri hreyfingu. Þannig hefur orðið mikil aukning síðustu ár á þeim sem hafa uppgvötað frisbígolf og eru farnir að stunda það af kappi. Þessu hafa mörg sveitarfélög tekið eftir og fáum við fjölda fyrirspurna þar sem verið er að velta því upp af hverju ætti að setja upp frisbígolfvöll í bæjarfélaginu. Nú eru komnir 30 vellir hér á landi og ekki ólíklegt að þeim fjölgi enn frekar á næstu 2-3 árum.

Ástæðurnar eru fjölmargar. Fyrir utan tilbreytingu og fjölbreytni í afþreyingu þá er frisbígolfið sérlega hentugt fyrir alla aldurshópa og auðvelt fyrir hvern sem er að ná tökum á því.

  • Ódýrt og einfalt er að setja upp heilan völl. Engar landslagsbreytingar.
  • Kostar ekkert að spila á völlunum.
  • Búnaður er mjög ódýr, í byrjun nægir einn 2.000 króna frisbídiskur.
  • Hentar allt frá börnum til ömmu og afa.
  • Hægt að spila í flestum veðrum, allt árið.
  • Holl og góð hreyfing.
  • Hægt að stunda einn eða fara með vinahópnum.
  • Færir nýtt líf á svæði þar sem er t.d. skógrækt, útivistarsvæði, almenningsgarðar ofl.
  • Viðhald á völlunum er mjög lítið.

Það er því engin spurning að frisbígolfvöllur er frábær viðbót við þá afþreyingu sem fyrir er. Hafið endilega samband við okkur á folf@folf.is til að fá ráðleggingar eða svör við spurningum.

 

Þrír nýjir vellir

Frisbígolfvellir á Íslandi 2016Á síðustu dögum hafa þrír nýjir frisbígolfvellir verið teknir í notkun hér á landi og er nú heildarfjöldi valla kominn í 30. Þessir nýju vellir eru á Neskaupsstað, í Vestmannaeyjum og í Reykjanesbæ en beðið hefur verið eftir þessum völlum með mikilli eftirvæntingu. Það er skemmtilegt að sjá hversu margir eru áhugasamir um folfið og við sjáum daglega nýja spilara sem eru að prófa. Allt sem þarf er bara einn frisbígolfdiskur og þá er hægt að byrja. Auðvitað er alltaf skemmtilegra að byrja með “sett” af diskum þ.e. pútter, midrange og dræver en þessi sett kosta frá 5.000 krónum þannig að byrjunarkostnaður er mjög lítill.

Við finnum líka fyrir auknum áhuga sveitarfélaga á að setja upp frisbígolfvöll í þeirra heimabæ en við fáum mikið af fyrirspurnum til okkar. Auðvitað er þetta frábær og ódýr viðbót við þá afþreyingu sem í boði er fyrir íbúana og stuðlar að aukinni lýðheilsu þeirra. Það er því líklegt að völlum eigi eftir að fjölga enn meira á komandi mánuðum og árum.

Folfsumarið 2016 byrjað

blaerEftir langan og snjóþungan vetur eru vellirnir óðum að taka við sér og folfarar streyma út til þess að spila. Þó sífellt fleiri spili allt árið þá er alltaf stærsti hópurinn sem spilar yfir sumarmánuðina enda skemmtilegasti tíminn fyrir frisbígolf. Gaman er að sjá þennan mikla fjölda sem hefur uppgvötað folfið og margir þeirra gríðarlega efnilegir. Við hvetjum sem flesta til að prófa að taka þátt í einhverjum af þeim 60 mótum sem við höldum á þessu ári. Hér er hægt að sjá mótaskrána.

Nú í sumar verður hægt að velja á milli 30 valla sem eru mjög fjölbreyttir og því auðvelt að finna völl við hæfi. Alltaf bætast ný sveitarfélög í hóp þeirra sem bjóða þessa frábæru íþrótt fyrir sína íbúa og hvetjum við áhugasama til þess að hafa samband við bæjarstjórn og senda þeim í framhaldi beiðni um völl með tillögu um staðsetningu. Hafið endilega samband á folf@folf.is ef þið viljið aðstoð frá okkur.

Gleðilegt frisbígolfsumar.

Adidas stígur inn í folfið

Adidas-e1460137596965-1024x581Til marks um uppganginn í frisbígolfinu á heimsvísu þá var það tilkynnt nú í vetur að risinn Adidas væri að koma með á markaðinn sérstaka frisbígolfskó en það er í fyrsta sinn sem þeir framleiða vöru sérstaklega fyrir sportið. Þetta gera þeir í samstarfi við heimsmeistarann sjálfann, Paul McBeth, en hann hefur komið að þróun skóna og mun keppa í þeim á öllum mótum á þessu ári. Efri hluti skósins er úr Terrex Swift R Gore-Tex sem tryggir góða öndun og vatnsheldni. Þess má geta að fyrsta sólarhringinn seldust 850 pör og greinilegt að folfarar eru mjög spenntir. Skildi vera langt í að við sjáum einhvern í þessum skóm á völlunum hér heima?

Góður aðalfundur ÍFS

fjolgun

Aðalfundur Íslenska frisbígolfssambandsins var haldinn fimmtudaginn 31. mars nk. kl. 20 í hlöðunni í Gufunesbæ. Fram kom á fundinum að síðasta ár hafi verið það besta frá upphafi en þeir sem stunda frisbígolf hafa aldrei verið fleiri. Einnig fer völlunum fjölgandi en nú í vor verða komnir 30 vellir á landinu. Í starfsskýrslu stjórnar kom fram að síðasta ár hafi verið mjög annasamt en rúmlega 50 mót voru haldin víðsvegar um landið. Síðasta sumar bar einna hæst heimsókn Jenni Eskelinen evrópumeistara sem hélt tvö kvennanámskeið í folfi og var frábær þátttaka á þeim báðum en nálægt 50 konur tóku þátt.

Kosin var fimm manna stjórn á fundinum en í henni sitja Birgir Ómarsson, formaður, Kristinn Arnar Svavarsson, Jón Símon Gíslason, Berglind Ásgeirsdóttir og Árni Sigurjónsson.

Vorið nálgast

IMG_4359-1-2

Eftir óvenjusnjóþungan vetur fer nú loksins að glitta í sumarið. Margir hafa verið duglegir að spila í vetur enda auðvelt að spila frisbígolf í snjó og kulda. Sumstaðar hefur snjóþunginn verið svo mikill að körfurnar hafa farið á kaf í skafla en sem betur fer er það undantekning.

Margir spilarar æfa púttin innanhúss á veturnar en það er auðvitað frábær leið til að halda sér við og jafnvel bæta pútttæknina. Til eru margar gerðir af ferðakörfum sem auðvelt er að setja upp hvar sem er. Gott er að hafa í huga að stuttu púttin eru í raun þau mikilvægustu því þau eiga auðvitað alltaf að heppnast. Það er því mjög gott að leggja áherslu á pútt sem eru innan við 7 metrar og reyna að ná góðum tökum á þeim.

Vetrarsól

IMG_4093

Þrátt fyrir snjó og kulda þá er auðvelt að spila frisbígolf á veturna. Góður fatnaður og litaðir diskar (ekki hvítir) er allt sem þarf. Körfurnar standa yfirleitt alltaf uppúr snjónum og því auðvelt að finna þær. Stundum getur verið gott að vera á mannbroddum (gormum) vegna hálku og ef mikill snjór er yfir vellinum þá getur diskurinn týnst auðveldlega. Þá er gott ráð að líma grannan spotta (1-1,5 metra) í miðjan diskinn en þessi borði finnst alltaf auðveldlega. Pakkaborði er líka hentugur. Góða skemmtun.

Áramótið 2016

10644899_10207328841412800_5214302055885268355_n

Hefð er komið á að halda fyrstu keppni ársins á fyrsta sunnudegi á vellinum í Gufunesi, óháð veðri og vindum. Síðustu ár höfum við haldið þessum sið og lent í allskonar veðri, bæði snjó og hita. Gott er að byrja árið með þessum hætti. Spilaður verður einn hringur af bláum teigum og hefst keppni kl. 13 sunnudaginn 3. janúar.

Vetur konungur

_MG_0206

Nú hefur snjóað vel á okkur landsmenn og vellirnir okkar teppalagðir með 30-60 cm snjólagi. Margir eru samt enn að spila enda getur það verið mjög skemmtilegt að taka hring við þessar aðstæður. Best er að vera með skæra diska sem finnast vel í snjónum en sumir nota það ráð að binda c.a. 50 cm band/borða í miðjan diskinn sem auðvelt er að finna.

Fimmti völlurinn tekinn í notkun á Akureyri

IMG_3183

Nú í vikunni var settur upp nýr 6 körfu frisbígolfvöllur á Eiðsvelli á Akureyri en völlurinn er sá fimmti sem Akureyringar geta nú spilað á. Hinir eru að Hömrum, á Hamarskotstúni, við Glerárskóla og í Hrísey. Auk þess voru settar upp stakar körfur við Oddeyrarskóla, Eyrarveg og við Hjalteyrargötu.

Akureyri er því orðinn draumastaður fyrir áhugasama frisbígolfkastara enda vellirnir mjög ólíkir og fjölbreyttnin mikil. Án efa er erfiðasti völlurinn inn á Hömrum en hann er að mörgum talinn einn skemmtilegasti (og erfiðasti) völlur landsins. Vellirnir á Hamarskotstúni og Eiðsvelli eru hinsvegar stuttir vellir þar sem hægt er að spila með pútterum eða midrange diskum. Völlurinn við Glerárskóla var settur upp í sumar og notaður á Landsmóti UMFÍ sem fram fór um verslunarmannahelgina en um 80 manns kepptu þá í folfi.

Íslandsmeistarar krýndir um helgina.

islandsmot

Um helgina fór fram Íslandsmeistararmótið í frisbígolfi en keppt var á þremur völlum, Gufunesi, Fossvogi og Laugardal. Á mótinu er keppt í 5 flokkum og krýndir Íslandsmeistarar í opnum flokki, kvennaflokki og barnaflokki. Hörkuspennandi keppni var í öllum flokkum en það endaði svo að Jón Símon Gíslason varð Íslandmeistari karla, Guðbjörg Ragnarsdóttir Íslandsmeistari kvenna og Blær Örn Ásgeirsson er Íslandsmeistari barna. Guðbjörg varði sinn titil frá því í fyrra en hún er margfaldur Íslandsmeistari en Jón Símon var að vinna titilinn í annað sinn en hann vann einnig 2013. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.