Fimmti völlurinn tekinn í notkun á Akureyri

IMG_3183

Nú í vikunni var settur upp nýr 6 körfu frisbígolfvöllur á Eiðsvelli á Akureyri en völlurinn er sá fimmti sem Akureyringar geta nú spilað á. Hinir eru að Hömrum, á Hamarskotstúni, við Glerárskóla og í Hrísey. Auk þess voru settar upp stakar körfur við Oddeyrarskóla, Eyrarveg og við Hjalteyrargötu.

Akureyri er því orðinn draumastaður fyrir áhugasama frisbígolfkastara enda vellirnir mjög ólíkir og fjölbreyttnin mikil. Án efa er erfiðasti völlurinn inn á Hömrum en hann er að mörgum talinn einn skemmtilegasti (og erfiðasti) völlur landsins. Vellirnir á Hamarskotstúni og Eiðsvelli eru hinsvegar stuttir vellir þar sem hægt er að spila með pútterum eða midrange diskum. Völlurinn við Glerárskóla var settur upp í sumar og notaður á Landsmóti UMFÍ sem fram fór um verslunarmannahelgina en um 80 manns kepptu þá í folfi.

Íslandsmeistarar krýndir um helgina.

islandsmot

Um helgina fór fram Íslandsmeistararmótið í frisbígolfi en keppt var á þremur völlum, Gufunesi, Fossvogi og Laugardal. Á mótinu er keppt í 5 flokkum og krýndir Íslandsmeistarar í opnum flokki, kvennaflokki og barnaflokki. Hörkuspennandi keppni var í öllum flokkum en það endaði svo að Jón Símon Gíslason varð Íslandmeistari karla, Guðbjörg Ragnarsdóttir Íslandsmeistari kvenna og Blær Örn Ásgeirsson er Íslandsmeistari barna. Guðbjörg varði sinn titil frá því í fyrra en hún er margfaldur Íslandsmeistari en Jón Símon var að vinna titilinn í annað sinn en hann vann einnig 2013. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Nýr frisbígolfvöllur á Egilsstöðum

Frisbí 2

Völlurinn í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum er sex körfu völlur og öllum opinn. Við innkomuna í garðinn, nálægt Safnahúsinu, hefur verið komið fyrir skilti sem sýnir skipulag frisbívallarins, m.a. lengd einstakra brauta.

Auk Fljótsdalshéraðs lagði Ungmennafélagið Þristurinn til fjármagn til kaupa á körfu, og Minningasjóður um Pétur Kjerúlf lagði verkefninu til veglegt fjárframlag til minningar um Pétur. Á skiltinu við frisbívöllinn standa þessi orð frá aðstandendum sjóðsins til minningar um Pétur: „Brosum, elskum og njótum dagsins í dag og verum þakklát fyrir það sem við eigum og erum. Verum besta útgáfan af okkur og njótum litlu hlutanna í lífinu, því þegar litið er til baka eru það þeir sem skipta máli. Grípum stundina og gerum hana að þeirri réttu í stað þess að bíða eftir henni.“

Hér er kort af vellinum. Egilsstaðir

Íslandsmótið í frisbígolfi 2015

isl15c

Íslandsmótið verður haldið dagana 4-6. september 2015

Keppt verður í 5 flokkum og á þremur völlum. Mótsstjóri er Bjarni Baldvinsson. Á föstudeginum er keppt í Texas Scramble á Klambratúni.

Skráning skal send á netfangið folf@folf.is og tilgreint í hvaða flokki keppt er. Skráningu lýkur miðvikudaginn 2. september kl. 18.

Nánari upplýsingar eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015

Upplýsingar um A-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – A

Upplýsingar um B-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – B

Upplýsingar um C-flokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – C

Upplýsingar um kvennaflokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – kvenna

Upplýsingar um barnaflokk eru hér: Íslandsmót í frisbígolfi 2015 – barna

Nýr völlur á Seltjarnarnesi

FullSizeRender

Einn nýjasti folfvöllurinn er nú kominn í notkun á Valhúsahæðinni á Seltjarnarnesi. Völlurinn er með 9 körfur og liggur í hring frá kirkjunni og því auðvelt að finna hann. Heimamenn hönnuðu brautirnar sem liggja um hæðina en við hvetjum auðvitað alla til þess að prófa.