Gufunesvöllur endurbættur

gufuteigar

Nú í sumar var frisbígolfvöllurinn í Gufunesi tekinn í gegn og endurbættur á marga vegu. Fyrstu körfurnar voru settar þar í júlí 2003 þegar þar var tekinn í gagnið 9 brauta völlur sem var sá fyrsti í Reykjavík og markaði tímamót fyrir okkur spilara. Seinna var hann stækkaður en í dag er þetta eini 18 brauta völlur landsins. Völlurinn er svokallaður náttúruvöllur þ.e. hann liggur í náttúrulegu umhverfi og því er auðveldara að týna diskum en á völlunum í almenningsgörðunum. Því er nauðsynlegt að “spotta” þegar spilað er.

Í sumar var völlurinn endurhannaður þar sem bestu brautirnar voru látnar halda sér en nýjum bættum við. Einnig var skipt um allar körfur og settir þrír teigar á hverja braut.

Það sem gert var í sumar:

  • Nýjar Innova Discatcer körfur.
  • Þrír teigar á hverja braut. (Rauðir, hvítir og bláir.)
  • Bláu teigarnir (erfiðustu) voru jarðvegsskiptir og sett á gervigras fyrir betra grip.
  • Nákvæmar merkingar settar á allar brautir.
  • Brautirnar slegnar meira en áður og farið í öflugri trjáklippingar.

Endurbótunum lauk nú í lok ágúst og má segja að Gufunesvöllur hafi aldrei verið betri enda Íslandsmótið á næsta leiti. Við hvetjum alla til að prófa þennan frábæra völl og velja auðvitað teiga við hæfi.

Nýju vellirnir slá í gegn

hrisey

Mjög ánægjulegt er að sjá þann mikla fjölda fólks sem er að uppgvöta frisbígolf síðustu mánuði. Mikil aukning hefur orðið síðan við opnuðum nýju vellina þrá í Reykjavík þ.e. í Laugardal, í Fossvogsdal og í Breiðholti og greinilegt að almenningur tekur þessari viðbót við afþreyingu fagnandi. Gaman er að sjá fólk á öllum aldri spila folf og áberandi er að fjölskyldur eru byrjaðar að spila enda frisbígolf hentugt öllum aldurshópum. Fjölbreyttir teigar eru skemmtileg leið til að jafna út getumuninn. Við vonum að veðrið haldist gott langt fram á haust fyrir áhugasama spilara.

Íslandsmótið 2014

mot14

Helgina 5.-7. september nk. verður Íslandsmótið í frisbígolfi haldið og hefst á föstudeginum með Íslandsmóti í Texas Scramble sem er einskonar upphitun fyrir helgina. Tveir eru í liði og kasta báðir en betra kastið er látið gilda.

Keppt verður í þetta sinn á þremur völlum, á föstudeginum verður keppt á Klambratúnsvelli sem og á sunnudeginum í C-, kvenna- og barnaflokki. Klambravöllur er orðinn heimavöllur margra spilara og því ákváðum við að halda hluta mótsins þar. Við vonumst til að sem flestir taki þátt enda mótið miðað við bæði byrjendur og vanari folfara.

Nánari upplýsingar um mótið má sækja hér: folf íslandsmót 2014b.