Sá elsti fær upplyftingu

Á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni er elsti folfvöllur landsins en hann var settur þar upp sumarið 2002 og strax sama ár var haldið fyrsta frisbígolfmótið sem kallast Úlli ljóti en það hefur verið haldið á hverju ári síðan og yfirleitt bæði að vori og hausti. Völlurinn var fyrst með 9 brautir sem fljótlega fjölgaði í 10 en fyrir tveimur árum var völlurinn svo stækkaður í 18 brautir.

Á þessu ári var klárað að smíða heilsársteiga á allar þær brautir þar sem hægt er að koma því við og nýlega var hafist handa við að endurnýja gömlu körfurnar með nýrri körfum en upprunalegu körfurnar hafa sinnt hlutverki sínu vel hingað til. Sú vinna er rúmlega hálfnuð og er reiknað með að búið verði að skipta þessum gömlu út á næsta ári.

Við hvetjum auðvitað alla til þess að renna austur á Úlfljótsvatn (45 mínútur) og spila þennan skemmtilega og fjölbreytta völl og í leiðinni er hægt að taka hring á Ljósafossvelli sem er aðeins í nokkurra mínútna aksturfjarlægð frá Úlfljótsvatni.