Íslandsmeistarar 2025

Nú um helgina fór fram Íslandsmótið í frisbígolfi og lék veðrið við keppendur alla helgina. Keppt var í 6 flokkum en spilaðar voru þrjár umferðir, ein á Gufunesvelli og tvær á Grafarholtsvelli.
Mikil spenna var í flestum flokkum en þó ekki í Opnum meistaraflokki og Meistaraflokki kvenna þar sem Ellert Georgsson vann með miklum yfirburðum en hann spilaði hringinga þrjá á -21 kasti og var 13 köstum á undan næsta manni. Þetta var þriðji Íslandsmeistaratitill Ellerts.
Sama gerði María Eldey Kristínardóttir en hún spilaði hringina þrjá á -21 og var 26 köstum á undan næstu konu. Þetta var fimmti Íslandsmeistaratitill Maríu.

Aðrir Íslandsmeistarar 2025 eru:
Stórmeistaraflokkur 40 ára og eldri: Pétur Gunnarsson
Stórmeistaraflokkur kvenna 40 ára og eldri: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Stórmeistaraflokkur 50 ára og eldri: Elmar Viðarsson
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri: Birgir Smith

Við óskum þeim öllum til hamingju með titilana.

Öll úrslitin í Íslandsmótinu má sjá hér: https://www.pdga.com/tour/event/93462

Glæsilegt heimsmeistaramót

Þessa dagana fer fram heimsmeistaramótið í frisbígolfi en í fyrsta sinn er það haldið utan Bandaríkjanna og eru það Finnar sem eru gestgjafar 2025. Mótið þykir eitt það flottasta sem haldið hefur verið enda eru Finnar þekkt frisbígolfþjóð og faglegir fram í fingurgóma.
Mótið er haldið á tveimur völlum, annarsvegar “The Beast” en sá völlur er í borginni Nokia og er 2794 metrar og er par 63 og hinsvegar “The Monster” sem er í Tampere og er 3280 metrar og par 67.

Mikil spenna er fyrir lokadaginn og ótrúleg tilþrif þar sem vallarmetin hafa verið slegin. Við Íslendingar eigum tvo fulltrúa á mótinu, Íslandsmeistarana Maríu Eldey og Ellert
Kristján. Við hvetjum alla til þess að fylgjast með lokadeginum á síðu PDGA eða horfa á beina útsendingu á Disc Golf Network.


Folfnámskeið fyrir konur

Þann 6. ágúst heldur Juliana Korver frisbígolfnámskeið fyrir konur í klúbbhúsinu Geisla (Þorláksgeisla 51). Juliana Korver er margfaldur heimsmeistari í frisbígolfi og er gríðarlega vinsæll kennari og leiðbeinandi í íþróttinni og einstakt tækifæri að fá hana hingað til lands.
Námskeiðið verður haldið miðvikudaginn 6. ágúst 2025 og hefst kl. 19:00. Verð 3500 kr.
Skráning og greiðsla fer fram á staðnum milli kl. 18:30-19:00.

Við hvetjum allar konur til að mæta.

Skemmtilegt Íslandsmót barna.

Það var líf og fjör í Grafarholtinu sl. laugardag þegar Íslandsmót barna var haldið þar en þetta er fjórða árið í röð sem við höldum þetta mót. Boðið var upp á 10 keppnisflokka og keppt bæði á litla vellinum (Græningjanum) og stóra vellinum fyrir 12 ára og eldri.
Veðrið lék við okkur og margir sem fóru brosandi heim eftir skemmtilegan dag.

Við vonumst til að sjá sem flesta á næsta ári en mótið er ávallt haldið fyrsta laugardag í júlí.

Íslandsmót barna

Á hverju ári er haldið sérstakt Íslandsmót barna en það er ætlað yngri keppendum í okkar frábæru íþrótt. Öll börn eru velkomin óháð getu eða reynslu í frisbígolfi.

Boðið er upp á 10 keppnisflokka en þeir eru: 15, 12, 10, 8, 6 ára og yngri í bæði stelpu og strákaflokkum. Skráning fer fram á staðnum og fyrir frekari upplýsingar er hægt að senda fyrirspurn á folf@folf.is

Íslandsmótið 2025

Íslandsmótið í frisbígolfi verður haldið dagana 8.-10. ágúst í sumar en keppt verður á Gufunes- og Grafarholtsvelli. Íslandsmótið er eins og áður mót þeirra bestu en keppt verður í 8 flokkum og verða því átta Íslandsmeistarar krýndir eftir mótið. Mótið er PDGA vottað B tier mót. Kvennaflokkar spila blandaða hvíta- og bláa teiga en aðrir flokkar spila bláa teiga.

Upphitun fyrir mótið verður 7. ágúst en þá verður haldið Íslandsmótið í Betri disk (Texas Scramble) og eru allir velkomnir að taka þátt í því.

Nánari upplýsingar eru hér: https://www.folf.is/keppnir/islandsmot/

Keppnisfolf

Þó að flestir sem stunda frisbígolf geri það sér til gamans og taki hring með skemmtilegum vinum þá vita ekki allir að keppnishluti íþróttarinnar er mjög öflugur. Hér á landi eru haldin yfir 100 frisbígolfmót á hverju ári og þessi mót eru öllu fólki opin. Hægt er að sjá næstu mót undir flipanum Viðburðir á forsíðu folf.is

Það getur stundum virkað flókið að taka þátt og skrá sig en mótshaldarar eru alltaf spenntir fyrir því að fá nýja keppendur sem eru óreyndir og vilja leggja sig fram um að svara spurningum og aðstoða. Sendið endilega spurningar á þá og fáið svör og aðstoð.

Keppnisflokkar í frisbígolfi eru fjölmargir því við viljum að sem flestir hafi tækifæri á að keppa og finna sinn flokk. Þessir flokkar hafa allir skammstafanir en við höfum íslenskað nöfnin til að skýra þá betur. Hér eru helstu flokkarnir:

Opinn meistaraflokkur – MPO
Meistaraflokkur kvenna – FPO
Stórmeistaraflokkur 40+ – MP40
Almennur stórmeistaraflokkur 40+ – MA40
Stórmeistaraflokkur kvenna 40+ – FP40
Almennur stórmeistaraflokkur kvenna 40+ – FA40
Stórmeistaraflokkur 50+ – MP50
Almennur stórmeistaraflokkur 50+ – MA50
Stórmeistaraflokkur kvenna 50+ – FP50
Almennur stórmeistaraflokkur 60+ – MA60
Almennur stórmeistaraflokkur kvenna 60+ – MA60
Almennur stórmeistaraflokkur kvenna 50+ – FA50
Almennur flokkur 1 – MA1
Almennur flokkur kvenna 1 – FA1
Almennur flokkur 2 – MA2
Almennur flokkur kvenna 2 – FA2
Almennur flokkur 3 – MA3
Almennur flokkur kvenna 3 – FA3
Ungmennaflokkur 18 ára og yngri – MJ18
Ungmennaflokkur kvenna 18 ára og yngri – MJ18
Barnaflokkur 15 ára og yngri – MJ15
Barnaflokkur stúlkur 15 ára og yngri – MJ15
Barnaflokkur 12 ára og yngri – MJ12
Barnaflokkur stúlkur 12 ára og yngri – MJ12

Gleðilegt sumar

Nú er skemmtilegur tími framundan með sól í haga, hækkandi hita og lengri dögum. Við sjáum líka að folfarar flykkjast út og eru byrjaðir að kasta diskum á völlunum. Framundan er vonandi frábært sumar og við hvetjum alla til að kynna sér viðburðadagatalið en yfir 100 viðburðir eru þar um allt land.

Aðalfundur ÍFS

Aðalfundur ÍFS var haldinn 27. mars sl. en á fundinum var farið eftir nýjum lögum sem samþykkt voru fyrir ári síðan sem kveða á um fulltrúalýðræði þ.e. að nú eiga einungis samþykkt frisbígolffélög fulltrúa á fundinum og atkvæðarétt. Skýrsla stjórnar og reikningar voru lögð fram og mótadagskrá ársins kynnt.

Ný stjórn var kosin en í henni sitja Runólfur Helgi Jónasson formaður, Daníel Sigurðsson gjaldkeri, Svandís Halldórsdóttir, Friðrik Snær Sigurgeirsson og Hans Orri Straumland. Hans Orri kemur nýr inn í stjórnina í stað Gunnars Einarssonar sem þökkuð eru góð störf.