Paige Pierce á Íslandi

Síðustu daga nutum við íslendingar þess heiðurs að fá sjálfan heimsmeistara kvenna, Paige Pierce í heimsókn til okkar en hún hélt námskeið bæði í Reykjavík og á Akureyri fyrir námsfúsa folfara. Óhætt er að segja að Paige hafi vakið athygli í frisbígolfheiminum undanfarin ár en hún hefur núna unnið heimsmeistaratitilinn fjögur ár í röð og er nánast ósigrandi á þeim mótum sem hún keppir á. Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára hefur hún spilað frisbígolf í um 20 ár enda kynnti faðir hennar sportið fyrir henni strax á unga aldri.

Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli við Paige er hversu tæknilega góð hún er þrátt fyrir að vera hvorki hávaxin eða kraftaleg og sýnir svo greinilega að tæknin er það sem skiptir mestu máli í frisbígolfinu en ekki vöðvakraftur eða líkamlegir yfirburðir. Paige heillaðist af landi og þjóð og stefnir á að koma hingað aftur sem fyrst.