Allt að gerast…

Nú er að koma einn skemmtilegasti tími ársins fyrir okkur folfara þegar sólin hækkar á lofti og lofthiti eykst verulega. Þá kemur fiðringur í flesta þó að það sé stækkandi hópur sem spilar orðið allt árið. Flestir vellir virðast koma vel undan vetri og því er upplagt að blása rykið af diskunum og drífa sig út. Í sumar bætast 10 nýjir vellir við þá 46 sem fyrir eru og auðvitað er frítt að spila á þeim öllum.

Til viðbótar við þessa nýju velli verður farið í miklar framkvæmdir á tveimur eldri völlum. Að Hömrum við Akureyri verður völlurinn stækkaður í 18 brautir og verður því annar völlurinn á landinu í fullri stærð. Viðbótin tengist gamla vellinum og liggur að hluta inn í Kjarnaskóg sem mun auka fjölbreyttnina og gera völlinn mjög skemmtilegan. Auk þess eru framkvæmdir að hefjast við völlinn í Grafarholti en settir verða heilsárs teigar með gervigrasi á allar brautir sem þýðir að rauðir, hvítir og bláir teigar verða allir jafnvel útbúnir. Auk þessa verða gerðar áhugaverðar breytingar á 7. og 8. braut.

Við vonum að sjá þig út á velli í sumar.